Innlent

Willum í­hugar formannsframboð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Willum Þór Þórsson er forseti ÍSÍ.
Willum Þór Þórsson er forseti ÍSÍ. Vísir/Ívar Fannar

Willum Þór Þórsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, íhugar formannsframboð í Framsóknarflokknum.

Willum Þór, sem tók nýlega við sem forseti ÍSÍ, segir hóp af góðu fólki hafa hvatt sig til þess að fara í formannsframboð í samtali við mbl. Aðspurður segist hann íhuga málið sem hafi komið þó komið nokkuð óvænt upp þegar Sigurður Ingi Jóhannsson formaður tilkynnti að hann hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri á næsta landsfundi.

„Maður finnur auðvitað til ábyrgðar og vill leggja sitt af mörkum. Þannig að það minnsta sem ég get gert er að hugsa þetta,“ er haft eftir Willum í frétt mbl.

Willum Þór Þórsson varð fyrst þingmaður Framsóknar árið 2013. Árið 2021 tók hann við sem heilbrigðisráðherra í seinni ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og gegndi embættinu þar til Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sleit ríkisstjórnarsamstarfinu.

Hann bauð sig fram í Alþingiskosningunum árið 2024 og leiddi lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi en hlaut ekki kjör á þing. Ekki leið langur tími þar til Willum fór af stað í aðra kosningabaráttu, þá í forsetakjöri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar hlaut hann kjör með miklum yfirburðum og hefur sinnt stöðunni síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×