Sport

Ís­lenskur dómari dæmir á fimleikamóti í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Magnús Tómasson er nú staddur í Kína að dæma á kínverska meistaramótinu.
Björn Magnús Tómasson er nú staddur í Kína að dæma á kínverska meistaramótinu. FSÍ

Björn Magnús Tómasson fékk athyglisvert boð á dögunum. Björn Magnús, sem er einn af okkar bestu dómurum í áhaldafimleikum karla, fékk boð frá kínverska fimleikasambandinu um að dæma kínverska meistaramótið.

Þetta mót er með þeim sterkari í heiminum þar sem kínverskir fimleikamenn hafa í áraraðir verið á meðal fremstu fimleikamanna í heimi.

Þetta er mikill heiður fyrir Björn Magnús sem lætur vel af sér í Kína samkvæmt frétt á heimasíðu fimleikasambandsins og hefur verið að dæma hringina síðustu daga. Það eru fjórir dagar eftir af mótinu og því nóg að gera hjá okkar manni.

Björn Magnús hefur í áratugi verið sá íslenski dómari sem unnið hefur mikla sigra með framgöngu sinni bæði hérlendis sem og á alþjóðlega sviðinu.

Hann hefur staðið sig með mikilli prýði í sínum störfum sem dómari á Evrópu- og heimsmeistaramótum og það mikilvægt að bæði FIG og Evrópska fimleikasambandið hafa valið hann sérstaklega til þátttöku á Ólympíu- og Evrópuleikum.

Björn hefur nú dæmt fjóra Ólympíuleika og tvenna Evrópuleika. Hann hefur verið sæmdur heiðursviðurkenningum frá bæði Alþjóðafimleikasambandinu og evrópska fimleikasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×