Erlent

Vörpuðu milljörðum erfða­breyttra fræja yfir akra Afgan­istan

Samúel Karl Ólason skrifar
Afangskur bóndi safnar ópíum úr valmúa í Jalalabad í Afganistan árið 2004.
Afangskur bóndi safnar ópíum úr valmúa í Jalalabad í Afganistan árið 2004. Getty/Yoray Liberman

Bandaríkjamenn vörpuðu ekki eingöngu sprengjum og fallhlífarhermönnum úr háloftunum yfir Afganistan á þeim tuttugu árum sem stríðið gegn Talibönum og al-Qaeda stóð yfir. Útsendarar Leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, vörpuðu einnig reglulega milljónum valmúafræja á akra landsins, með því markmiði að draga úr heróínframleiðslu.

Eftir innrás Bandaríkjanna í Afganistan árið 2001 notuðu Talibanar og vígamenn al-Qaeda heróínframleiðslu til að fjármagna vopnakaup sín og baráttuna gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra.

Ræktunin og framleiðslan var mjög umfangsmikil og ýtti undir spillingu í Kabúl og héruðum Afganistan. Heróín, framleitt úr afgönskum valmúa, teygði anga sína víðsvegar um heiminn.

Miklar umræður embættismanna og erindreka um hvernig hægt væri að vinna bug á þessari heróínframleiðslu skiluðu engri niðurstöðu. Það sem þeir vissu þó ekki var að útsendarar CIA voru með eigin leynilega áætlun.

Samkvæmt heimildum blaðamanna Washington Post, sem hafa varpað ljósi á þessa áætlun, snerist hún um það að varpa milljörðum erfðabreyttra valmúafræja á akra í Afganistan.

Þetta hófst árið 2004 en fræjunum hafði verið breytt á þann veg að erfiðara eða ómögulegt var að vinna heróín úr plöntunum sem spruttu upp úr þeim. Þessari viðleitni var hætt árið 2015.

Vonast var til þess að fræin myndu yfir tíma breyta afgönskum valmúa svo hann hentaði ekki til heróínframleiðslu.

Einhverjir heimildarmenn WP segja að aðgerðin hafi virkað um tíma. Hún hafi þó verið einstaklega kostnaðarsöm. Aðrir segja hana hafa ekki skilað neinum árangri. Heilt yfir á það við alla viðleitni til að sporna gegn heróínframleiðslu í Afganistan.

Valmúaræktun dróst verulega saman frá 2007 til 2011 en tók þá stökk aftur og náði nýjum hæðum upp úr 2016.

Fengu ekki að úða eitri

Ráðamenn í Bandaríkjunum vildu lengi úða plöntueitri úr lofti í miklu magni. Forsvarsmenn hersins, CIA og ráðamenn í Bretlandi voru hins vegar andsnúnir því. Þeir sögðu að það myndi koma niður á tilraunum til að fá almenning í Afganistan til að vinna með þeim.

Ráðamenn í Afganistan voru einnig alfarið á móti dreifingu eiturs.

George Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sagði einu sinni við Hamid Karzai, fyrrverandi forseta Afganistan, að hann væri „úðari“ og gaf þar til kynna að hann vildi úða eitri í Afganistan.

„Það ertu ekki í Afganistan,“ sagði Karzai þá.

Ráðamenn í Afganistan heimiluðu aldrei beitingu eiturs en í millitíðinni héldu útsendarar CIA áfram að varpa fræjunum á akrana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×