Tónlist

Fagnar fimm­tugs­af­mæli með fyrstu tón­leikum Am­pop í á­tján ár

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jón Geir segir hljómsveitirnar hafa æft stíft í aðdraganda tónleikanna.
Jón Geir segir hljómsveitirnar hafa æft stíft í aðdraganda tónleikanna. Aðsend

Hljómsveitin Ampop ætlar að koma fram í fyrsta sinn í 18 ár á morgun í fimmtugsafmæli trommuleikarans Jóns Geirs Jóhannssonar. Auk Ampop koma fram Skálmöld, Bris, Urmull, Klamedía X og Atarna sem eru allt hljómsveitir sem hann hefur verið í eða spilað með. Allur ágóði af miðasölu rennur til Vonarbrúar en tónleikarnir, og afmælið, fara fram í Austurbæjarbíó.

„Öll böndin samþykktu að vera með án þess að hika og fóru í það af fullum krafti og æfingar hafa gengið frábærlega. Það var alltaf mikill metnaður í öllum þessum sveitum og þær æfðu allar og spiluðu alveg brjálæðislega mikið á sínum tíma og það situr enn þá í vöðvaminninu,“ segir Jón Geir í samtali við fréttastofu en hann er alla jafna þekktur er sem glaðasti trommuleikari landsins.

Hefur túrað um allan heiminn

Í tilkynningu um tónleikana segir að Jón Geir hafi rækilega stimplað sig inn í íslenska tónlistarsögu allt frá því að hann fékk trommukjuða að gjöf frá foreldrum sínum ungur að aldri. Hann hefur túrað um heiminn með bæði Ampop og Skálmöld og spilað á dimmum rokkklúbbum, á böllum um allt land og hvar sem hægt er að stilla upp trommusetti með Atarna, Bris, Klamedíu X og Urmull.

Liðsmenn Ampop fagna afmælinu með honum og koma fram í fyrsta skipti í átján ár en hljómsveitin kom síðast fram á Iceland Airwaves árið 2007. Eitt þekktasta lag Ampop er My Delusions.

Í tilkynningu kemur fram að hljómsveitin hafi æft stíft fyrir tónleikana og að meðlimir séu spenntir að koma fram saman aftur. Í hljómsveitinni eru auk Jóns Geirs, Kjartan F. Ólafsson og Biggi Hilmarsson. Óvíst er hvort þeir komi aftur saman og er því um einstakt tækifæri að ræða.

Klamedía X á æfingu fyrir tónleikana. Aðsend

Miðinn kostar þrjú þúsund krónur og rennur allur ágóði til Vonarbrúar, almannaheillafélags sem aðstoðar fjölskyldur á Gasa.

„Eins og heimsbyggðin öll hef ég þurft að horfa upp á ólýsanlegar hörmungarnar sem íbúar Gasa hafa þurft að þola og fundið hvað maður má sín lítils. Tengdamóðir mín, Ragnheiður Steindórsdóttir, er ein af þeim sem komu að stofnun Vonarbrúar þannig að ég sé í návígi ástríðuna og hjartað sem býr að baki þessu starfi og hvernig einstaklingar geta hjálpað á svæði þar sem alþjóðlegar hjálparstofnanir hafa takmarkaðan aðgang,“ segir hann um ákvörðunina um að láta allan ágóða renna til samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.