Körfubolti

Finnur Freyr: „Kannski hefur Davíð Tómas eitt­hvað til síns máls“

Árni Jóhannsson skrifar
Finnur Freyr gat verið ánægður með sína menn en ekki dómarar
Finnur Freyr gat verið ánægður með sína menn en ekki dómarar Vísir / Diego

Hann mátti vera ánægður þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson, með sigur sinna manna í kvöld. Valur pakkaði Álftanesi saman í seinni hálfleik og endaði leikurinn 92-80. Valur hefur átt erfitt í vetur en þessi leikur var frábær á löngum köflum.

Finnur var ekki maður margra orða eftir leik þegar blaðamaður náði honum í viðtal. Hvað skilaði þessum sigri var fyrsta spurning.

„Varnarlega fannst mér við góðir og sóknarlega fundum við lausnir.“

Er þetta besti leikur Vals í vetur?

„Ekki miðað við byrjunina en þetta var karakter sigur.“

Staðan var jöfn í hálfleik 41-41 en Valur sigldi fram úr í seinni hálfleik. Hvað var rætt í búningsklefanum í hálfleik?

„Við aðlöguðum okkur eftir að Kristófer var rekinn út og fórum svo að taka fleiri sénsa.“

Kristófer Acox var sendur í sturtu í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið tæknivillu og óíþróttamannslega villu dæmda á sig á skömmum tímar. Hann fékk tæknivilluna dæmda á sig fyrir að brúka kjaft þegar augljóslega var brotið á honum án þess að dæmt væri á það brot. Dómararnir sáu ekki mistökin sín og dæmdu tæknivillu á hann. Finnur var spurður hvort maður þyrfti ekki að finna til með Kristófer í þessu atriði.

„Klár óíþróttamannsleg villa. Tæknivillan, ég veit ekki með hana. En það er brotið á honum svona í hverjum einasta leik. Honum er haldið, þegar hann keyrir á körfuna þá er farið í bakið á honum og aldrei er dæmd óíþróttamannsleg villa. Það eina sem við biðjum um er samræmi, ekki bara í einum leik heldur á milli leikja. Þessu er oft ábótavant. Kannski hefur Davíð Tómas eitthvað til síns máls.“

Svo mörg voru þau orð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×