Körfubolti

Mario sleit kross­band: „Gríðar­legt á­fall fyrir Njarð­vík“

Sindri Sverrisson skrifar
Mario Matasovic hefur varla misst af leik síðan að hann kom inn í lið Njarðvíkur fyrir 7-8 árum.
Mario Matasovic hefur varla misst af leik síðan að hann kom inn í lið Njarðvíkur fyrir 7-8 árum. vísir/Anton

Tímabilinu er því miður lokið hjá Íslendingnum Mario Matasovic, leikmanni Njarðvíkur í Bónus-deild karla í körfubolta. Hann fór sárkvalinn af velli í tapinu gegn KR á fimmtudaginn.

Skoðun hefur nú leitt í ljós að Mario sleit krossband í hné.

Þrátt fyrir að spila minna en tuttugu mínútur gegn KR náði Mario að enda stiga- og frákastahæstur, með 20 stig og sjö fráköst, áður en hann var studdur af velli vegna meiðsla sem strax var ljóst að væru grafalvarleg.

„Hann var búinn að spila nánast fullkominn leik áður en hann meiddist. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Njarðvíkurliðið. Þetta er leikmaður sem er ekkert hægt að skipta út, því hann er Íslendingur,“ sagði Teitur Örlygsson í Körfuboltakvöldi á Sýn Sport í gærkvöld.

Í þættinum var ekki orðið alveg ljóst hvort krossband hefði slitnað en það hefur nú verið staðfest og ljóst að langt og strangt endurhæfingarferli bíður Mario. Njarðvík þarf svo að finna nýjar leiðir til að sækja sigra:

„Hann er hjartað og sálin í þessu liði. Það er rosaleg orka í kringum hann, bæði varnarlega og sóknarlega. Hann er kvikur á löppum en rosalega sterkur. Þetta er sorglegt,“ sagði Sævar Sævarsson en í Körfuboltakvöldi var sýnt frá því þegar Mario meiddist og mátti heyra sársaukaöskur hans:

„Hann kallar ekki allt ömmu sína svo að sársaukinn hefur verið mikill,“ sagði Sævar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×