Veður

Víða vinda­samt á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu tvö til sexstig sunnantil, annars víða í kringum frostmark.
Hiti verður á bilinu tvö til sexstig sunnantil, annars víða í kringum frostmark. Vísir/Anton Brink

Hæðahryggur liggur yfir landinu og veldur almennt hægum vindum og bjartviðri með köflum í dag og á morgun.

Á vef Veðurstofunnar segir að smálægð á Grænlandshafi fari yfir landið í dag á leið sinni suðaustur af landinu og því verði víða vindasamt um tíma, en hvasst með Suðausturströndinni síðdegis og í kvöld.

Þessu fylgja skúrir eða slydda sunnan- og vestantil, en líkur eru á talsverðri snjókomu norðan- og austantil fram eftir degi. Hiti verður á bilinu tvö til sexstig sunnantil, annars víða í kringum frostmark.

„Áfram verða allhvassir eða hvassir vindstrengir við Suðausturströndina á morgun og norðaustan kaldi á Austurlandi, en annars mun hægari vindur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðlæg átt, 8-15 m/s og dálítil él austan- og vestanlands, en yfirleitt mun hægara og bjart í öðrum landshlutum. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag: Hægviðri, víða bjart og talsvert frost, en dálítil él á norðanverðu landinu. Gengur í suðaustankalda og þykknar upp á vestanverðu landinu um kvöldið og hlýnar þar lítillega.

Á fimmtudag: Sunnan- og suðvestanstrekkingur með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu víða um land, einkum þó syðra. Hlýnandi veður.

Á föstudag: Líkur á suðlægum áttum og dálitla rigningu eða slyddu, einkum um vestanvert landið, en síðar snjókomu og heldur kólnandi veður.

Á laugardag: Útlit fyrir fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, en norðaustan kaldi norðvestantil. Snjókoma eða él nyrst, en rigning eða slydda á Suðvesturlandi. Annars úrkomulaust að mestu og fremur svalt.

Á sunnudag: Útlit fyrir áframhaldandi kalda eða strekking norðvestantil, en annars hæglætisveður. Víða úrkomulítið, en snjókoma eða él sunnan- og norðvestantil. Kólnar heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×