Fótbolti

Þurfti að gúgla Heimi sem hefur nú á­hrif á næstu kyn­slóð Íra

Aron Guðmundsson skrifar
Írar eru að komast að því hversu gott sé að hafa Heimi í sínu horni
Írar eru að komast að því hversu gott sé að hafa Heimi í sínu horni Vísir/Getty

Eftir magnaða sigra írska landsliðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar gegn Portúgal og Ungverjalandi, sem sjá til þess að HM draumurinn lifir, telur blaðamaður þar í landi að áhrif Heimis á landsliðið og sigrarnir muni lifa með Írum um ókomna tíð.

„Það eru engar ýkjur að segja að stemningin hjá írsku þjóðinni í heild sinni hafi tekið breytingum eftir það sem hefur átt sér stað síðustu fjóra til fimm daga eða svo, “ segir Gor­don Manning, blaðamaður The Irish Times í sam­tali við íþrótta­deild. 

„Þetta er magnað. Írska lands­liðið hefur sótt stærri sigra sögu­lega séð, bæði á heims- og Evrópumótum, en ég man ekki eftir svona fjögurra daga tíma­bil þar sem að við vinnum Portúgal 2-0 á heima­velli og svo Ung­verja­land 3-2 á úti­velli þar sem að sigur­markið kemur á loka­andar­tökum leiksins. Svona hlutir henda Ír­land ekki, við erum yfir­leitt á hinni hlið peningsins, ein­hvers konar boxpúði fyrir aðrar þjóðir til þess að kýla. Andrúms­loftið hér er töfrum líkast eftir þessa leiki.“

Ótrúlegt hve margt hefur breyst á svo skömmum tíma

Sam­heldni og baráttu­andi hafi alltaf ein­kennt lands­lið Ír­lands en úr­slitin höfðu ekki verið að skila sér.

„Liðið hefur verið að skila slæmum úr­slitum. Trúin meðal írsku þjóðarinnar gagn­vart því að liðinu tækist að snúa genginu við var ekki mikil en hún virðist svo sannar­lega hafa verið til staðar í lands­liðs­hópnum. Það er ótrú­legt að hugsa til þess hversu mikið hefur breyst á svo skömmum tíma eftir þessa tvo leiki. Trúin á það hverju þetta lið getur áorkað hefur breyst á einni nóttu.“

Heimir ræðir við hetju Íra innan vallar í leiknum gegn Ungverjum. Framherjinn Troy Parrott skoraði þrennu í leiknum og hafði nokkrum dögum áður skorað bæði mörk Íra í 2-0 sigri gegn PortúgalVísir/Getty

Heimir hafi sjálfur yfir að skipa stóískri ró sem virðist hafa smitað út frá sér í leik­manna­hópinn þegar að illa gekk en eftir fyrri hluta undan­keppninnar var Ír­land í botns­æti síns riðils sem inni­hélt lands­lið Portúgal, Ung­verja­lands og Armeníu.

„Heimir sagði sjálfur að Ír­land þyrfti á krafta­verki að halda eftir að hafa tapað gegn Armeníu á úti­velli í öðrum leik undan­keppninnar. Eftir þann leik trúðu ekki margir að hann myndi enn vera lands­liðsþjálfari Ír­lands eftir nýaf­staðinn lands­leikja­glugga. Það virtist var óum­flýjan­legt að tími Heimis með liðið myndi líða undir lok. 

Tapið gegn Armeníu var hrika­legt fyrir Ír­land en það sem að Heimir hefur komið með í kjölfarið, og þið á Ís­landi gætuð kannast við, er þessi stóíska ró. Það kemur honum ekkert úr jafn­vægi og hann lætur hvorki draga sig upp í skýja­borgir eða niður í dimma dali. Þessi ró hans hefur hjálpað bæði honum og liðinu að finna sér leið úr vand­ræðunum.“

Allir á Google þegar Heimir var ráðinn

Gagn­rýnin í garð Heimis eftir fyrstu leikina í undan­keppninni var mikil og hikuðu sér­fræðingar og fyrrum knatt­spyrnu­hetjur Íra ekki við að fleygja því fram í um­ræðuna í fjölmiðlum ytra að Eyja­manninn ætti að reka. 

Heimir gerði þó það sem hann gerir jafnan best, að láta um­ræðuna sem vind um eyru sín þjóta og láta verkin tala inn á vellinum. Magnaður enda­sprettur sá til þess að Ír­land er á leið í um­spil um sæti á HM næsta árs.

Heimir Hallgrímsson með sínu þjálfarateymiVísir/Getty

„Það vissi enginn hver hann var þegar hann kom inn fyrst. Þjálfara­leit írska sam­bandsins var lang­dregin eftir að Stephen Kenny steig til hliðar. Þegar að Heimir var kynntur sem næsti lands­liðsþjálfari fóru næstum allir á Goog­le til þess að fletta því upp hvaða maður þetta væri. 

Hann kom inn sem óþekkt stærð, tók við hópi leik­manna sem hafði ekki tekist að heilla. Væntingarnar voru ekki miklar en þó búist við því að liðið myndi vinna leiki á móti þjóðum eins og Armeníu og vera sam­keppnis­hæft í riðlinum. Eftir tapið gegn Armenum kom pressan og Heimir sagði að liðið þyrfti á krafta­verki að halda.“

Og viðræður um nýjan samning voru settar á ís að beiðni Heimis sem var spurður út í framtíð sína í starfi.

„Út­litið var ekki bjart og fyrir nýafstaðinn lands­leikja­glugga leit þetta út þannig að þetta væru síðustu leikir Heimis í starfi. Gjör­sam­lega galið að hugsa út í það núna. Nú vonum við að hann geti tryggt okkur sæti á HM næsta árs.“

Írar virði margt í fari Heimis

Verðið á hluta­bréfum í Heimi hafi rokið upp eftir sigurleiki Írlands. 

„Hann er maðurinn sem bauð Ron­aldo í birginn, maðurinn sem stýrði Ír­landi til sigurs í mögnuðum leikjum gegn Portúgal og Ung­verja­landi. Ég tel að írsku þjóðinni hafi alltaf líkað vel við ákveðna hluti í fari Heimis. Hann er vin­gjarn­legur og heiðar­legur maður og írska þjóðin kann að virða það. En úr­slitin til að byrja með urðu til þess að út­litið var ekki bjart. Samningur Heimis gildir fram yfir þessa undan­keppni og út­litið var á þá leið að sam­starfið myndi líða undir lok eftir riðla­keppnina en þessi úr­slit hafa breytt öllu. Bæði fyrir Heimi og liðið.“

Boltinn hjá Eyjamanninum

Nú­gildandi samningur Heimis og írska knatt­spyrnu­sam­bandsins rennur sitt skeið eftir komandi um­spil og telur Gor­don það í höndum Heimis núna hvort sam­starfið verði fram­lengt eður ei.

„Til­finningin á Ír­landi í dag er á þá leið að það er eins og liðið sé búið að tryggja sér sæti á HM. Sem er skrítið því fram undan eru tveir stór­leikir áður en við það sæti er tryggt. Þessir um­spils­leikir í mars munu auðvitað hafa sitt að segja um fram­haldið á þessu sam­starfi en úr­slitin hjá liðinu í nýaf­stöðnum glugga er hægt að nota sem sterk rök fyrir því að ákvörðunin um áfram­haldandi sam­starf liggi hjá Heimi sjálfum. Ekki nema að úr­slitin í um­spilinu verði al­gjör­lega hörmu­leg.“

Heimir og Caomin Kelleher, markvörður írska landsliðsins og enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford, eftir sigurinn á Ungverjum á sunnudaginn síðastliðinn.Vísir/Getty

„Heimir hefur örugg­lega unnið sér inn fram­lengingu á sínum samningi, ef það er það sem að hann vill. Það sem honum hefur tekist að áorka undan­farna daga með þessu írska lands­liði, það er engum orðum of­aukið þegar ég segi að þau muni hafa áhrif á komandi kynslóðir, um þessa leiki verður talað um ókomna tíð.“

Áhuginn tekur kipp

Mikil fót­bolta­hefð hefur ávallt verið ríkjandi á Ír­landi en undan­farnir ára­tugir þó verið tíðinda­litlir. Yngsta kynslóð Íra hefur ekki upp­lifað það sem Gor­don sjálfur upp­lifði á sínum yngri árum. Það gæti verið að fara breytast.

Stuðningurinn við írska landsliðið hefur ávallt verið til staðar en er að aukast til muna um þessar mundirVísir/Getty

„Það hefur alltaf verið stuðningur til staðar við írska lands­liðið en liðinu hefur ekki tekist að tryggja sig inn á HM síðan árið 2002. Nokkrar kynslóðir krakka hafa núna alist upp án þess að hafa upp­lifað að sjá Ír­land á HM. 

Þið á Ís­landi upp­lifðuð hvernig það er árið 2018, sú upplifun er töfrum líkust. Ég er svo heppinn að hafa verið fæddur þegar að Ír­land tryggði sig inn á HM árið 1990, svo aftur 1994 og 2002. En margir Írar hafa ekki upp­lifað neitt slíkt, heldur beðið átekta eftir því að geta stutt lið sem getur gefið þeim von um HM sæti. Þetta lið hefur nú veitt þeim þá von.“

Trúin meðal írsku þjóðarinnar eykst og það sést á sölu ársmiða á heima­leiki írska lands­liðsins á næsta ári.

„Opnað var fyrir um­sókn um ársmiða á heima­leiki írska lands­liðsins í síðustu viku, undir­tektirnar voru ekki miklar. En strax um kvöldið eftir sigurinn gegn Ung­verjumi veit ég að löng röð myndaðist af fólki sem vildi kaupa ársmiða. Allt hefur breyst. Stuðningur við írska lands­liðið hefur alltaf verið mikill en hann hefur aukist til muna núna. Þetta er risastórt fyrir yngri kynslóðina hér, að geta stutt þetta lið og átt fyrir­myndir til þess að líta upp til.“

Írar höfðu ríka ástæðu til að fagna í leikslok gegn Ungverjum, farmiði í umspil um HM sæti í höfnVísir/Getty

Ekki bara jákvæðir punktar

Enn eru þó uppi spurningar­merki á varðandi ýmsa þætti í leik írska lands­liðsins.

„Það eru mörg spurningar­merki uppi varðandi þetta lið. Við getum ekki fengið mörk frá miðjumönnunum okkar. Það voru átta eða níu miðju­menn í síðasta lands­liðs­hópi og ég held að aðeins einn þeirra hafi áður skorað mark í lands­leik fyrir Ír­land. Það er vanda­mál. Við erum með nokkra mjög góða varnar­menn en þeir hafa gerst sekir um ein­beitingar­leysi sem hefur gert and­stæðingum okkar kleift að skora á okkur mörk.

En sam­heldnin í hópnum virðist vera mikil sem og trúin, leik­menn trúa því að þeir geta náð á HM. En leiðin fram undan er löng. Fyrir nokkrum vikum síðan var út­litið ekki bjart. Það hefur margt breyst núna en það hvernig við höfum sótt síðustu sigur­leiki, og sú stað­reynd á móti hvaða liðum þeir sigrar komu, hefur kveikt vonar neista hjá írsku þjóðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×