Viðskipti innlent

Fá grænt ljós á kaupin á Gæðabakstri

Árni Sæberg skrifar
Ölgerðin mun senn eignast Gæðabakstur.
Ölgerðin mun senn eignast Gæðabakstur. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur veitt Ölgerðinni grænt ljós á 3,5 milljarða króna kaup á Gæðabakstri ehf.

Ölgerðin tilkynnti í janúar síðastliðnum að félagið hefði undirritað samkomulag um helstu skilmála kaupa á 100 prósent hlut í Gæðabakstri.

Í tilkynningu Ölgerðarinnar til Kauphallar sagði að Gæðabakstur væri í 20 prósenta eigu Vilhjálms Þorlákssonar, framkvæmdastjóra Gæðabaksturs, og 80 prósenta eigu Dragsbæk A/S í gegnum dótturfélagið Visku ehf.

Heildarvirði viðskiptanna væri 3,454 milljarðar króna og að frádregnum vaxtaberandi skuldum væri áætlað kaupverð félagsins á afhendingardegi um 2,7 milljarðar króna. Kaupin væru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu Ölgerðarinnar til Kauphallar í dag segir að félaginu hafi í dag borist bréf þar sem fram komi að Samkeppniseftirlitið telji ekki tilefni til frekari rannsóknar eða íhlutunar í samrunamálinu, og ljúki þar með meðferð þess.

Ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins varðandi kaup Ölgerðarinnar á Kjarnavörum sé að vænta í lok desember 2025.


Tengdar fréttir

Loka Kristjánsbakaríi

Stjórn Gæðabaksturs hefur ákveðið að hætta rekstri Kristjánsbakarís á Akureyri. Í skoðun er að nýr rekstraraðili taki við versluninni í Hafnarstræti en verslunin við Hrísalund mun heyra sögunni til. Kaup Ölgerðarinnar á Gæðabakstri, sem tilkynnt voru í byrjun árs, eru til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×