Handbolti

Óðinn marka­hæstur og full­komin byrjun Kadetten hélt á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og Óðinn Þór Ríkharðsson á góðri stundu með landsliðinu.
Aron Pálmarsson og Óðinn Þór Ríkharðsson á góðri stundu með landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar hans í Kadetten Schaffhausen héldu sigurgöngu sinni áfram í svissneska handboltanum í dag.

Kadetten vann þá sjö marka heimasigur á Wacker Thun, 38-31, en liðið hefur unnið alla fjórtán deildarleiki sína á þessu tímabili.

Wacker Thun byrjaði þessa umferð í fimmta sætinu en er nú fimmtán stigum á eftir Kadetten eftir þetta tap.

Kadetten var 23-18 yfir í hálfleik og með góða forystu allan leikinn.

Óðinn átti góðan leik að venju en hann var með átta mörk úr aðeins níu skotum í kvöld. Þrjú af mörkum hans komu af vítalínunni.

Óðinn var markahæstur hjá Kadetten en Dimitrij Küttel skoraði átta mörk eins og hann.

Óðinn er nú kominn með 103 mörk í fyrstu þrettán deildarleikjum sínum á tímabilinu eða 7,9 mörk í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×