Veður

All­víða él eða skúrir og flughált víða um land

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður víða í kringum frostmark en öllu kaldara norðan- og austantil.
Hiti á landinu verður víða í kringum frostmark en öllu kaldara norðan- og austantil. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir fremur hægri breytilegri átt í dag og allvíða éljum eða skúrum. Flughált er víða um landið.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að hiti verði í kringum frostmark, en frost núll til átta stig á Norðaustur- og Austurlandi.

„Í kvöld nálgast dýpkandi lægð úr suðri og þá snýst í vaxandi austan- og norðaustanátt.

Á morgun gengur í allhvassa eða hvassa norðaustanátt, en storm eða rok á Suðausturlandi. Snjókoma eða slydda, einkum austan- og suðaustanlands en úrkomulítið á Vesturlandi.

Lægðin verður milli Íslands og Skotlands annað kvöld, en á föstudag fjarlægist hún. Þá er spáð minnkandi norðanátt með éljum, en þurru veðri á Suður- og Vesturlandi. Harðnandi frost,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á vef Vegagerðarinnar segir að flughált sé víða um landið og aðstæður einungis fyrir bíla á góðum vetrardekkjum. Vegfarendur eru beðnir að kanna aðstæður áður en lagt er af stað. Á höfuðborgarsvæðinu eru hálkublettir á nokkrum stofnbrautum.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Gengur í norðaustan 13-20 m/s, en 20-25 við suðausturströndina. Víða snjókoma, en úrkomulítið á vestanlands. Hiti kringum frostmark sunnan heiða, annars 0 til 5 stiga frost.

Á föstudag: Norðan 8-18, hvassast suðaustantil. Él og frost 1 til 7 stig, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis.

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og úrkomulítið, en fer að snjóa suðvestantil á landinu. Kalt í veðri.

Á sunnudag: Austanátt og snjókoma með köflum. Frost 0 til 10 stig, kaldast norðanlands, en frostlaust syðst á landinu.

Á mánudag (fullveldisdagurinn) og þriðjudag: Norðaustanátt og dálítil él, en þurrt á Suðvestur- og Vesturlandi. Áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×