Körfubolti

Emil þurfi að líta inn á við og vinna aftur trú leik­manna

Aron Guðmundsson skrifar
Emil Barja þjálfari Hauka er í brekku með sitt lið sem varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili
Emil Barja þjálfari Hauka er í brekku með sitt lið sem varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili Paweł/Vísir

Slæm staða ríkjandi Íslandsmeistara Hauka í Bónus deild kvenna í körfubolta var til umræðu í Körfuboltakvöldi á dögunum. Sérfræðingur þáttarins segir þjálfara liðsins, Emil Barja, þurfa að líta inn á við. 

Haukar hafa ekki farið vel af stað í Bónus deildinni þetta tímabilið og nú þegar tapað fleiri leikjum í deildinni, fjórum eftir átta umferðir, heldur en allt síðasta tímabil og eru sem stendur í 7.sæti. 

Ingibjörg Jakobsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds, sem varð á sínum tíma sem leikmaður í tvígang Íslandsmeistari, segir vanta trú hjá leikmönnum Íslandsmeistaraliðsins. 

Klippa: Körfuboltakvöld: Trú skorti hjá Íslandsmeisturunum

„Það gleyma ekkert allir hvernig körfubolti er spilaður. Það sem er samt mikilvægast í þessu öllu er að leikmenn trúi því sem þær eru að gera. Ef það er þreyta í mannskapnum, hvort sem umræðir hjá þjálfaranum eða leikmönnum, þá eru allir svo allir svo fljótir að missa dampinn.“

Eftir ellefu stiga tap gegn Stjörnunni í síðustu umferð lét Emil Barja, þjálfari Hauka, hafa það eftir sér að það hafi skort framtak, orku og barátta hjá sínu liði og ef að hans lið væri svona lélegt í því sem það væri að gera þyrfti kannski bara að breyta öllu. 

„Það þarf bara leikgleði, trú og hann (Emil) verður að finna það hjá sér og sínu liði hvernig hann getur fengið aftur trú leikmanna á sér,“ sagði Ingibjörg í Körfuboltakvöldi. „Mér finnst það vera það sem þær þurfa akkúrat núna. Því ef við lítum á leikmennina sem eru í Haukum, það væri hver sem er til í að þjálfa þetta lið. Ég held að hann þurfi að kíkja inn á við.“

Umræðuna úr Körfuboltakvöldi má sjá hér fyrir ofan en Haukar heimsækja topplið Njarðvíkur í Bónus deildinni í kvöld klukkan korter yfir sjö. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland rásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×