Erlent

Átta ára fangelsi fyrir að skipu­leggja fjölda­morð á Euro­vision

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Eurovision 2020 átti að fara fram í Rotterdam en var aflýst. Keppnin fór hins vegar fram í borginni ári síðar.
Eurovision 2020 átti að fara fram í Rotterdam en var aflýst. Keppnin fór hins vegar fram í borginni ári síðar. Getty/Soeren Stache

23 ára sænskur karlmaður að nafni Alexander Holmberg hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi í Lúxemborg fyrir að leggja á ráðin um að framkvæma hryðjuverk á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í Rotterdam í Hollandi árið 2020.

Réttarhöld fóru fram í sumar en dómurinn hefur nú verið birtur og gerir sænska Aftonbladed grein fyrir efni hans í dag. Holmberg verður einnig gert að undirgangast svokallaða af-öfgavæðingarmeðferð en hann viðurkenndi fyrir dómi að vera meðlimur í hryðjuverkasamtökum og að hann hafi haft í hyggju að fremja hryðjuverk, bæði í Svíþjóð, Lúxemborg og í Hollandi. Þá var hann fundinn sekur um vopnalagabrot en hann var með eins konar sprengjuverkstæði í kjallaranum.

Þá segir í dómnum að Holmberg hafi gegnt leiðtogahlutverki í hryðjuverkasamtökum, en sex ár af átta ára fangelsisdómnum eru skilorðsbundin að því er segir í frétt Aftonbladed. Ein af forsendunum fyrir þessu er sögð að hann undirgangist prógramm í Lúxemborg sem ætlað er að vinda ofan af öfgahyggju Svíans unga. Ákæruvaldið hafði farið fram á tólf ára fangelsi en verjendur fóru fram á mildari refsingu, einkum þar sem Holberg var ekki orðinn 18 ára þegar flest brotin voru framin.

Hugðust loka útgönguleiðum og höfðu teikningar af höllinni

Skotmark árásarinnar sem átti að fara fram í Rotterdam 2020 voru gestir og aðdáendur Eurovision sem hugðust sækja söngvakeppnina, en líkt og kunnugt er var keppninni aflýst það ár vegna kórónuveirufaraldursins. Keppnin fór hins vegar fram í Rotterdam ári síðar.

Í Google-skjali sem er meðal gagna málsins var að finna upplýsingar um áformin sem Holmberg hafði deilt með öðrum manni. Þar er útlistað hvernig ætlunin hafi verið að lauma sér inn í gervi öryggisvarða og loka flóttaleiðum. Útvegaðar höfðu verið teikningar af tónleikahöllinni og gerð drög að „árásarsmiðsmynd.“ Eurovision hafi verið valið sem skotmark vegna þess hversu opinskátt „hinseginvænt“ yfirbragð keppninnar væri.

Holmberg var engu að síður handtekinn í Lúxemborg í febrúar 2020, nokkrum mánuðum áður en keppnin átti að fara fram, eftir að lögreglan fékk ábendingu frá leyniþjónustunni sem hafði komist á snoðir um að „hægriöfgamaður í Lúxemborg hafi keypt efni og skipuleggi hryðjuverk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×