Körfubolti

„Við sýndum mikinn töffara­skap í lokin“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik á Ítalíu í kvöld.
Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik á Ítalíu í kvöld. FIBA Basketball

Elvar Már Friðriksson átti stórkostlegan leik í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í körfubolta hóf undankeppni HM með frábærum sigri á Ítalíu.

Elvar skoraði 29 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum. Hann skoraði níu síðustu stig íslenska liðsins í miklum spennuleik.

Ragnar Nathanaelsson, fyrrum landsliðsmiðherji, tók viðtölin fyrir Ríkisútvarpið eftir leik en hann var liðsstjóri í ferðinni og tók einnig þátt í æfingum.

„Ég er sáttur. Þetta var góð liðsframmistaða, allir að leggja sig fram og við náðum að standast áhlaupið þeirra í fjórða leikhluta. Við sýndum mikinn töffaraskap í lokin,“ sagði Elvar.

„Við ætluðum svolítið að láta bakverðina þeirra klára í kringum körfuna og láta þá klára yfir Tryggva,“ sagði Elvar.

„Það var leikplanið að halda þriggja stiga skyttunum þeirra út úr leiknum og láta þá sækja á körfuna. Það gekk svona næstum því allan leikinn. Að halda þeim í 76 stigum á heimavelli er bara drulluflott,“ sagði Elvar.

„Ég held það sé bara alltaf hungur þegar við komum saman og þetta er bara nýtt mót. Við erum búin að ýta EM til hliðar og það er bara næsta verkefni og við erum bara að fókusera á það,“ sagði Elvar.

Elvar beindi svo orðum sínum til Ragnars.

„Ég ætlaði bara að fá að þakka þér fyrir að koma með í þessa ferð, að vera liðsstjóri og leikmaður á æfingum. Blokka Tryggva og halda honum í skefjum, rétta okkur vatn í leiknum, sjá um að allt sé til staðar og núna búinn að taka við af Gunna Birgis, þannig að þú ert greinilega allt í öllu, maður. Takk kærlega,“ sagði Elvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×