Skoðun

Kennum þeim ís­lensku

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hefur fjölgað verulega síðustu ár. Í fjórum skólum í borginni eru yfir 55% nemenda með annað móðurmál en íslensku og í níu þeirra eru yfir þriðjungur nemenda með erlent móðurmál. Þetta kallar á markvissar aðgerðir til að tryggja að öll börn fái þann stuðning sem þau þurfa til að ná góðum árangri og finna sig í skólasamfélaginu.

Ein af þeim leiðum sem hafa reynst áhrifaríkar við að kenna börnum nýtt tungumál eru móttökudeildir í skólum sem einblína á tungumálakennslu barna áður en að þau hefja nám í almennum bekk. Góð grunnfærni í íslensku byggir upp traustan grunn fyrir framtíðar námsframvindu og samfélagsleg tengsl. Því leggjum við í Framsókn til að móttökudeildir verði opnaðar í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Mjúk lending í íslenskt skólakerfi

Móttökudeildir eru hugsaðar sem fyrsti viðkomustaður nemenda sem nýlega hafa flutt til Íslands. Þar er lögð áhersla á að skapa öruggt og stuðningsríkt umhverfi þar sem börn fá tíma og rými til að kynnast nýju skólakerfi, nýju tungumáli og nýju samfélagi. Markmiðið er lendingin sé eins mjúk og farsæl og hægt er.

Markviss kennsla í íslensku

Það er mjög krefjandi fyrir börn sem eru ný flutt til landsins að hefja nám í almennum bekk þar sem öll kennsla fer fram á íslensku samhliða því að fóta sig í nýrri menningu. Þetta getur ýtt undir óöryggi og gert þeim erfitt fyrir að taka virkan þátt í náminu. Kennarar hafa bent á þá miklu áskorun sem felst í því að kenna bekk þar sem hluti nemenda skilur ekki tungumálið. Með því að gefa börnum tíma til að byggja upp grunnfærni í íslensku áður en þau hefja nám í bekk, má draga úr álagi barna og kennara og skapa betra vinnuumhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Samhliða þarf þó að að styrkja starfsumhverfi grunnskólanna með auknum stuðningi og verkfærum til að mæta þörfum fjölbreyttra nemendahópa.

Í móttökudeildum er megináhersla lögð á markvissa íslenskukennslu. Nemendur fá kennslu sem tekur mið af færni þeirra, fyrri menntun og einstaklingsbundnum þörfum. Með því að byggja upp sterkari tungumálafærni fyrstu mánuðina á Íslandi aukast líkur á því að börnin geti síðar tekið virkari þátt í almennri kennslu, en að jafnaði er gert ráð fyrir því að barn sé ekki lengur í móttökudeild en í 3-6 mánuði. Ákvörðun um það byggir þó alltaf á einstaklingsbundnu mati.

Fræðsla fyrir börn og foreldra

Til þess að tilheyra samfélagi er ekki nóg að kunna tungumálið. Það þarf líka að skilja menningu og siði samfélagsins. Móttökudeildum er því ætlað að leggja áherslu á að kynna íslenska menningu og samfélag fyrir börnum og foreldra þeirra. Foreldrar gegna lykilhlutverki í skólagöngu barna og inngildingu þeirra í nýtt samfélag. Móttökudeildum er því jafnframt ætlað að stuðla að betra samstarfi heimilis og skóla og fyrirbyggja menningarárekstra.

Margir foreldrar af erlendum uppruna telja að takmörkuð íslenskukunnátta sé hindrun í þátttöku þeirra í skólastarfi barna sinna. Því leggur Framsókn einnig til að foreldrum sem ekki tala íslensku verði boðin gjaldfrjáls íslenskukennsla með sérstakri áherslu á orðaforða sem tengist skóla- og námsumhverfi barna þeirra. Markmið tillögunnar er að auðvelda foreldrum að læra íslensku og draga úr þörf fyrir túlkaþjónustu til lengri tíma.

Innleiðing í skrefum

Með því að hafa móttökudeildir í öllum skólum er tryggt að öll börn fá tækifæri til þess að kynnast sínum hverfisskóla og taka þátt í öðru skólastarfi með jafnöldrum sínum. Móttökudeildir eiga því ekki að einangra börn sem tala ekki íslensku eins og sérstakir móttökuskólar gera heldur efla og flýta fyrir raunverulegri þátttöku þeirra í skólastarfi þannig að þau geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi til framtíðar.

Tillaga Framsóknar gerir ráð fyrir því að móttökudeildir verði innleiddar í skrefum í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þörfin fyrir móttökudeildir er ólík eftir skólum og tekur umfang þeirra mið af því. Gert er ráð fyrir að starfsfólk geti færst á milli móttökudeilda innan skólahverfa til að mæta þörfum skólanna hverju sinni.

Lengi býr að fyrstu gerð

Okkar hlutverk er að tryggja öllum börnum góð tækifæri til að þroska hæfileika sína og færni, og um leið skapa jákvæð náms- og vinnuskilyrði fyrir nemendur og kennara.

Lengi býr að fyrstu gerð og þar verða áherslur okkar að liggja.

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar.




Skoðun

Sjá meira


×