Handbolti

„Ég er með mikla orku“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dana Björg mun hafa mikið að gera gegn Serbíu í kvöld.
Dana Björg mun hafa mikið að gera gegn Serbíu í kvöld. Tom Weller/Getty Images

„Hún er frábær liðsfélagi að hafa, gerir einhvern veginn alla í kringum sig glaðari og er bara alveg yndisleg“ sagði Elísa Elíasdóttur um liðsfélaga sinn í íslenska landsliðinu, Dönu Björg Guðmundsdóttir.

Dana er einmitt áberandi mikill stuðbolti og gleðin geislar af henni utan sem innan vallar.

„Já, ég er með mikla orku“ sagði Dana skellihlæjandi og bætti við:

„Ég reyni að nýta hana til að hjálpa öðrum og þetta hjálpar sjálfri mér auðvitað líka.“

Klippa: Stuðboltinn Dana Björg mun spretta mikið gegn Serbíu

Dana var í banastuði í fyrsta leik Íslands á HM og skoraði fjögur mörk í 32-25 tapi gegn Þýskalandi, ásamt því að stela boltanum einu sinni af þeim þýsku.

Hún mun líklega hafa enn meira að gera í leiknum gegn Serbíu í kvöld, því þær serbnesku eru hægari og seinni að skila sér til baka, sem býður upp á hraðaupphlaup fyrir hornakonuna.

„Já vonandi. Við Hafdís [Renötudóttir, markmaður] höfum verið að tala aðeins um þetta, að nota hennar styrkleika og mína, hlaupa mikið og fá auðveld mörk… Við höfum talað mikið um þetta, því við Hafdís erum ekki að æfa mikið saman, bara hérna með landsliðinu. Við verðum að finna tenginguna okkar á milli, prófa, klúðra, svo kemur þetta.“

Dana var ekki með á síðasta heimsmeistaramóti en þar voru Perla Ruth Albertsdóttir og Lilja Ágústsdóttir vinstri hornakonur Íslands. Perla er nýbúin að eignast barn og Lilja er meidd, þannig að Dana er orðin fyrsti kostur landsliðsþjálfarans í stöðuna, sem hún deilir með Rakel Oddnýju Guðmundsdóttur á þessu móti.

„Maður verður að njóta þess, en þetta er líka alveg smá stressandi auðvitað. Aðeins meiri pressa, en það hjálpar að vera búin að fá smá tíma á Íslandi, þannig að það er ekki eins mikið stress og var fyrir verkefnið. Núna er ég orðin aðeins rólegri“ sagði Dana en hún hefur alla tíð búið í Noregi og þekkti hinar stelpurnar okkar ekki mikið þegar hún spilaði fyrstu landsleikina í fyrra og fór með liðinu á EM.

Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 19:30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og fylgir stelpunum okkar eftir á meðan mótinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×