Handbolti

„Mig langar mjög mikið að gráta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fjögur mörk gegn Serbíu.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði fjögur mörk gegn Serbíu. sýn sport

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var sár og svekkt eftir eins marks tap Íslands fyrir Serbíu, 27-26, á HM í handbolta í kvöld. Hún fékk tækifæri til að jafna í lokasókn Íslands en markvörður Serbíu varði skot hennar úr hægra horninu.

„Mig langar mjög mikið að gráta. Þetta er ótrúlega svekkjandi og við lögðum gjörsamlega allt í þetta,“ sagði Þórey í samtali við Ágúst Orra Arnarson eftir leikinn í Stuttgart í kvöld.

Klippa: Þórey Anna sársvekkt eftir leik

„Ég fékk tvö færi í lokin og klúðraði þeim báðum. Þetta er sárt. Ég á eftir að hugsa um þetta lengi. En það er bara áfram gakk. Maður er mannlegur og þetta gerist.“

Ísland átti undir högg að sækja lengi vel í leiknum í kvöld og lenti mest sjö mörkum undir, 24-17. En lokakaflinn var frábær hjá íslenska liðinu og það var grátlega nálægt því að næla sér í sitt fyrsta stig á mótinu.

„Ég er ótrúlega stolt af þessu liði. Við börðumst eins og ljón og gáfum þeim ekki neitt. Það er heiður að fá að vera partur af þessu liði,“ sagði Þórey.

„Við megum svo sannarlega vera stoltar af okkar frammistöðu. Hver hefði trúað því að við myndum bara tapa með einu marki á móti Serbíu og vera í dauðafæri á að vinna þennan leik? Þetta var virkilega vel gert.“

Viðtalið við Þóreyju má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×