Sport

Zlatan mun hlaupa um með Ólympíueldinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic hefur skorað fyrir og unnið marga titla með bæði AC Milan og Internazionale.
Zlatan Ibrahimovic hefur skorað fyrir og unnið marga titla með bæði AC Milan og Internazionale. Getty/Claudio Villa

Zlatan Ibrahimovic verður á Vetrarólympíuleikunum sem fara fram á Ítalíu í byrjun næsta árs.

Zlatan fær fínt hlutverk á Vetrarólympíuleikunum. Hinn 44 ára gamli Svíi verður einn af 10.001 einstaklingum sem bera kyndilinn með ólympíueldinum sem verður tendraður á fótboltaleikvanginum San Siro í Mílanó.

Leikarnir í Mílanó-Cortina hefjast í febrúar. Þetta tilkynnti hann sjálfur á samfélagsmiðlum sínum.

Zlatan hefur spilað fyrir Mílanóliðin Inter og Milan og unnið ítölsku deildina með þeim báðum.

Zlatan lék fyrst með Internazionale frá 2006 til 2009 og skoraði þá 57 mörk í 88 leikjum. Hann fór þaðan til Barcelona en snéri aftur á Ítalíu 2011 sem leikmaður AC Milan þar sem hann spilaði til 2012. Zlatan skoraði þá 43 mörk í 61 leik. Hann endaði síðan feril sinn sem leikmaður AC Milan frá 2020 til 2023 og gerði þá 34 mörk í 64 leikjum. Hann starfar í dag hjá AC Milan sem íþróttaráðgjafi.

Zlatan vann ítölsku deildina með Internazionale þrisvar, 2007, 2008 og 2009, en hann varð tvisvar ítalskur meistari með AC Milan, árin 2011 og 2022.

Rúmlega tveggja mánaða ferðalag ólympíukyndilsins hófst 26. nóvember í Ólympíu í Grikklandi og fer kyndillinn í gegnum fjölda grískra og ítalskra borga áður en setningarathöfnin fer fram 6. febrúar. Ekki hefur enn verið tilkynnt hvenær og hvar Zlatan Ibrahimović tekur við kyndlinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×