Handbolti

„Hel­víti svart var það í dag“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir sækir að svartfellsku vörninni.
Sandra Erlingsdóttir sækir að svartfellsku vörninni. Alex Gottschalk/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

„Helvíti svart var það í dag,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handbolta eftir níu marka tap liðsins gegn Svartfjallalandi í millirðiðli 2 á HM í kvöld.

„Við byrjuðum leikinn bara ótrúlega illa. Við vorum að spila illa illa í vörn og vorum slakar sóknarlega og vorum ekki að finna okkar færi,“ bætti Sandra við.

„Það var eiginlega ótrúlegt að þetta hafi verið bara í 3-4 mörkum þarna í hálfleik. Svo heldur það bara áfram inn í seinni hálfleikinn. Þá spiluðum við eitthvað örlítið betur, en ekki nálægt því sem við getum verið.“

Sandra hóf leik á bekknum, en kom inn á þegar róðurinn var að þyngjast fyrir íslenska liðið.

„Við áttum bara að koma aðeins betra flæði á boltann, en það gekk ekkert æðislega heldur þegar við komum inn á. Stundum er þetta svona, því miður.“

Þrátt fyrir slæmt tap ætlar Sandra að reyna að horfa á það jákvæða sem átti sér stað í leiknum.

„Ég ætla að vona að við getum skoðað þetta og tekið eitthvað jákvætt út úr þessu. Það voru alveg nokkrir leikmenn sem voru frábærir í dag og stóðu sig mjög vel,“ sagði Sandra.

„Svona mót er mjög langt og við þurfum bara að halda áfram. Við eigum tvo leiki eftir sem við þurfum að nýta mjög vel.“

Tap Íslands þýðir að möguleikar liðsins á að komast upp úr milliriðli eru nánast engir.

„Það er bara eins og það er. Auðvitað hefði verið gaman að næla í tvö stig núna og reyna að halda einhverri spennu í þessu, en á sama tíma þurfum við bara að reyna að nýta hina tvo leikina í að bæta okkar leik. Svo bara sjáum við til,“ sagði Sandra að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×