Handbolti

„Mjög margt“ sem fór úr­skeiðis

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir var súr og svekkt yfir spilamennsku liðsins í kvöld.
Elín Rósa Magnúsdóttir var súr og svekkt yfir spilamennsku liðsins í kvöld. Alex Gottschalk/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, segir að fátt hafi gegnið upp hjá liðinu gegn Svartfjallalandi í kvöld.

Íslensku stelpurnar máttu þola níu marka tap gegn Svartfjallalandi í milliriðli 2 í kvöld, 27-36.

„Það var bara mjög margt,“ sagði Elín Rósa, aðspurð að því hvað hefði farið úrskeiðis í leiknum.

„Við vorum galopnar í vörninni, ekki nógu áræðnar í sókn og þegar við erum svona í vörn kemur náttúrulega lítil markvarsla. Við vorum bara sjálfum okkur verstar.“

Eins og aðrir í og í kringum liðið talar hún um að íslenska liðið hafi náð litlu floti á boltann í sókn.

„Það var kannski bara lítið flot. Við vorum staðar fannst mér og mikið að drippla og ekki að nýta okkur það þegar þær voru flatar. Við létum boltann ekki rúlla nógu vel. Þannig það var ýmislegt sem fór úrskeiðis.“

Hún segist vera svekktust með það hvernig íslenska liðið mætti til leiks.

„Bara það hvernig við komum inn í þennan leik. Mér fannst vanta orkuna sem er búin að vera í síðastliðnum leikjum. Við vorum með allt of lágt orkustig. Við fengum alveg eldræðuna í hálfleik þegar þetta var enn þá leikur. En við bara náum ekki að komast inn í leikinn almennilega.“

Um eldræðu Arnars Péturssonar, þjálfara liðsins, segir hún að Arnar hafi minnt þær á að þær hafi átt nóg inni.

„Við sýndum það í síðustu leikjum að við getum alltaf snúið þessu við. Þetta voru bara þrjú mörk í hálfleik, sem er ekki neitt. Hann var bara að peppa okkur áfram,“ sagði Elín að lokum.

Klippa: Elín Rósa eftir tapið gegn Svartfjallalandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×