Erlent

Hefja aftur leit að MH370

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í fyrra voru tíu ár liðin frá því að vélin hvarf.
Í fyrra voru tíu ár liðin frá því að vélin hvarf. Getty/NurPhoto/Supian Ahmad

Samgönguráðuneyti Malasíu hefur tilkynnt að leit muni hefjast á ný að MH370 þann 30. desember næstkomandi. MH370 er flugnúmer Boeing 777-200 þotu Malaysia Airlines sem hvarf á dularfullan hátt þann 8. mars 2014, á leið frá Kuala Lumpur til Pekíng.

Um borð voru 227 farþegar, flestir frá Kína og Malasíu, og tólf áhafnarmeðlimir.

Bandaríska fyrirtækið Ocean Infinity mun taka þátt í leitinni og rannsaka sjávarbotninn á fyrirfram tilgreindu svæði á að minnsta kosti 55 daga tímabili. Ekki hefur verið gefið upp um hvaða svæði er að ræða en í tilkynningu ráðuneytisins sagði að um væri að ræða það svæði þar sem mestar líkur væru taldar á að flugvélin hefði farið niður.

Búið er að leita að vélinni á stórum svæðum í Indlandshafi en yfirvöld á Malasíu greindu frá því í fyrra að þau væru reiðubúin að hefja leit á ný ef nýjar upplýsingar lægju fyrir. Þá hafa þau samþykkt að greiða Ocean Infinity 70 milljónir dala ef vélin finnst. Ef ekki, þá ber fyrirtækið kostnaðinn af leitinni.

Vélinni var snúið af leið skömmu eftir flugtak en ekki liggur fyrir hvers vegna. Ýmsar getgátur hafa verið uppi og sérfræðingar ekki á einu máli um hvað gerðist, hvort um var að ræða viljaverk flugmannanna, afskipti þriðja aðila eða tæknilega bilun.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×