Sport

Slógu Ís­lands­met um tæpa sekúndu og Símon á inni fyrir öðru meti

Sindri Sverrisson skrifar
Símon Elías Statkevicius, Vala Dís Cicero, Ýmir Chatenay Sölvason og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir settu saman Íslandsmet í dag.
Símon Elías Statkevicius, Vala Dís Cicero, Ýmir Chatenay Sölvason og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir settu saman Íslandsmet í dag. SSÍ/Simone Castrovillari

Blönduð boðsundssveit Íslands stórbætti Íslandsmetið í 4x50 metra skriðsundi á EM í 25 metra laug í Lublin í Póllandi í dag.

Sveitin var skipuð þeim Símoni Elíasi Statkevicius, Ými Chatenay Sölvasyni, Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur og Völu Dís Cicero.

Þau syntu á 1:33,36 mínútu og bættu metið frá því á HM í fyrra um nærri því sekúndu.

Símon Elías synti fyrsta sprettinn og fór hraðar en Íslandsmetið í 50 metra skriðsundi en það telur þó ekki þar sem að um keppni blandaðra sveita var að ræða. Hann fær hins vegar annað tækifæri á laugardaginn í sjálfu 50 metra skriðsundinu.

Spennandi kvöld fram undan

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir varð í 23. sæti í 100 metra flugsundi á 1:00,99 mínútu. Birnir Freyr Hálfdánarson keppti í sömu grein og synti á 52,99 sekúndum, og varð í 43. sæti.

Birgitta Ingólfsdóttir tók við þegar hún synti 200 metra bringusund og stórbætti sitt persónulega met síðan á Bikarkeppni SSÍ 2024, en hún synti á 2:31,31 sem er bæting um rúmar sex sekúndur.

Guðmundur Leo Rafnsson synti síðustu einstaklingsgrein Íslendinga í þessum morgunhluta, 100 metra baksund, þar sem hann kláraði sundið á 53,38 og endaði í 33. sæti.

Í kvöld keppir Snæfríður Sól Jórunnardóttir í úrslitum í 200m skriðsundi, en það sund hefst kl. 19:20 á íslenskum tíma. Nú þegar hefur hún bætt sitt eigið met í greininni í undanúrslitum og verður afar spennandi að sjá hvernig henni gengur í úrslitum greinarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×