Lífið

Einhentar ís­lenskar vin­konur: „Eins og við hefðum þekkst alla ævi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Falleg vinátta.
Falleg vinátta.

Í vikunni hitti Berghildur Erla magnaðan hóp kvenna sem hafa mætt miklum áskorunum en láta ekkert stoppa sig. Þær kalla sig einfaldlega Los armos.

Þær stöllur eiga það sameiginlegt að þær eru allar með eina hönd og hafa misst hina í veikindum eða vinnuslysum fyrir utan eina í hópnum sem fæddist einhent. Þær stofnuðu hópinn Los armos fyrir um fimmtán árum.

„Þegar við hittumst fyrst þá var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Við erum rosa góðar vinkonur,“ segir hópurinn á veitingastað í borginni þar sem Berghildur hitti þær.

„Þegar ég hitti þessar konur í fyrsta skipti þá vissi ég ekki að það væru svona margar einhentar konur á Íslandi og þegar við hittumst fyrst þá var eins og við hefðum alltaf þekkst því við gátum speglað okkur svo vel í hvor annarri,“ segir Edda Júlía Helgadóttir kennari.

50% afsláttur af handsnyrtingu

„Það eina sem ég tími er að fara í handsnyrtingu því ég fæ 50 prósenta afslátt. Maður er alltaf að græða, alltaf að græða. Ég notaði bara munninn sjálf til að naglalakka mig svo æfði ég mig með dekkra og dekkra þangað til ég var komin alveg ofan í rautt. Ég náði því alveg með munninum en svo fór ég í neglur árið 2008 og ég er búin að vera hjá hinni sömu síðan. Rosa lúxus,“ segir Margrét Snæbjörnsdóttir kennari og deildarstjóri.

„Maður notar munninn svo ofboðslega mikið, maður er alltaf að nota muninn,“ segir Elísabet S. Stephensen heimavinnandi um lífið með eina hönd. Allar hafa þær mismunandi sögur að segja eins og sjá má hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.