Körfubolti

„Ég er yfir­leitt ekki með neinn kjaft“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
A'ja Wilson fagnar í leik með Las Vegas Aces í lokaúrslitum WNBA-deildarinnar.
A'ja Wilson fagnar í leik með Las Vegas Aces í lokaúrslitum WNBA-deildarinnar. Getty/Christian Petersen

Körfuboltakonan A'ja Wilson var valin íþróttamaður ársins 2025 hjá Time-tímaritinu en þetta er annað árið í röð sem körfuboltakona verður fyrir valinu.

Wilson er aðalstjarna Las Vegas Aces sem varð WNBA-meistari í ár. Wilson sló ótal met þegar hún leiddi Aces til þriðja titilsins á fjórum árum og varð fyrsti leikmaðurinn í sögu WNBA eða NBA til að vinna titil, verðlaun fyrir verðmætasta leikmann úrslitakeppninnar, verðmætasta leikmann deildarinnar og varnarmann ársins á sama tímabili.

„Í ár vann ég allt. Ég er yfirleitt ekki með neinn kjaft,“ sagði Wilson við TIME. „Ég læt leikinn minn tala sínu máli. Þetta var stærsta stundin mín til þess, því enginn hefur nokkurn tíma gert það sem ég hef gert. Og ég held að fólk hafi virkilega þurft að skilja það,“ sagði A'ja Wilson í viðtalinu í Time.

Wilson var með 23,4 stig, 10,2 fráköst, 3,1 stoðsendingu og 2,3 varin skot að meðaltali í deildarkeppninni. Hún hækkaði allar tölur nema fráköstin í úrslitakeppninni þar sem hún var með 26,8 stig, 10,0 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 2,5 varin skot að meðaltali í leik.

Þetta er annað árið í röð sem íþróttamaður úr WNBA-deildinni hlýtur þennan heiður, en Caitlin Clark, leikstjórnandi Indiana Fever, var valin íþróttamaður ársins hjá TIME árið 2024.

Árin þar á undan unnu þau Lionel Messi (fótbolti), Aaron Judge (hafnabolti), Simone Biles (fimleikar) og LeBron James (körfubolti) þessi verðlaun Time.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×