Sport

Snæ­fríður Sól og Snorri Dagur eru sund­fólk ársins

Aron Guðmundsson skrifar
Snæfríður og Snorri eru sundfólk ársins 2025
Snæfríður og Snorri eru sundfólk ársins 2025 Myndir: Sundsamband Íslands

Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Snorri Dagur Einarsson eru sundfólk ársins 2025. Frá þessu greinir Sundsamband Íslands í fréttatilkynningu til fjölmiðla í dag. 

Snæfríður Sól er 25 ára gömul og syndir fyrir Álaborg í Danmörku. Þetta er í sjötta skipti sem hún er útnefnd sundkona ársins. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi árið 2025. Hún tryggði sér sjötta sæti í 200m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í Lublin í Póllandi fyrr í desember. Þar setti hún einnig tvö Íslandsmet, þar af eitt sem hafði staðið í 16 ár í 50m skriðsundi. Einnig bætti hún Íslandsmetið sitt í 200m skriðsundi um tæplega hálfa sekúndu, en sá tími er tuttugasti og þriðji besti tíminn í Evrópu frá upphafi.

Snæfríður Sól JórunnardóttirMynd/Sundsamband Íslands

Snæfríður Sól tók einnig þátt í Heimsmeistaramótinu í Singapore í ágúst sl. og varð þar í 23. sæti í 200m skriðsundi og í 29. sæti í 100m skriðsundi. Snæfríður Sól hefur keppt fyrir Íslands hönd á tvennum Ólympíuleikum, árið 2021 i Tokyo og árið 2024 í París. Hún stefnir ótrauð á sína þriðju Ólympíuleika í Los Angeles árið 2028. Snæfríður Sól var ein þeirra sem fékk starfslaun úr launasjóði íþróttamanna sem án efa á eftir að hjálpa henni að ná enn betri árangri á næstu árum.

„Snæfríður Sól er mikil fyrirmynd fyrir annað íþróttafólk, en samhliða æfingum stundar hún nám í sálfræði við Álaborgar Háskóla í Danmörku. Þess má geta að hún var 160 daga við æfingar og keppni erlendis á þessu ári,“ segir í tilkynningu frá Sundsambandi Íslands

Snorri Dagur Einarsson er tvítugur Hafnfirðingur sem syndir með Sundfélagi Hafnarfjarðar en hann hefur verið valinn sundmaður ársins 2025 hjá Sundsambandi Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem Snorri Dagur er útnefndur sundmaður ársins.

Snorri Dagur Einarssonmynd/simone castrovillari

Snorri Dagur hefur staðið sig mjög vel á þessu ári og hefur bætt tíma sína töluvert. Hann vann besta afrek karla á Íslandsmeistaramótinu í apríl í 50m laug og aftur á Íslandsmeistaramótinu í nóvember í 25m laug. Snorri Dagur tók þátt í EM U23 í Slóvakíu í sumar og komst í úrslit í 50m bringusundi og endaði í 4. sæti.

Snorri Dagur keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í Póllandi í desember, en þar synti hann 100m bringusund á sínum allra besta tíma og varð í 32 sæti.

„Snorri Dagur er einn þeirra sem fékk á dögunum starfslaun úr Launasjóði Íþróttamanna og mun það án efa hjálpa honum að ná enn betri árangri á næstu árum. Snorri Dagur stefnir ótrauður á næstu Ólympíuleika árið 2028 í Los Angeles,“ segir í tilkynningu sundsambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×