Sport

Karlarnir þremur ára­tugum á eftir konunum með nýjar reglur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aryna Sabalenka, besta tenniskona heims, kælir sig niður á Wimbledon-mótinu i sumar.
Aryna Sabalenka, besta tenniskona heims, kælir sig niður á Wimbledon-mótinu i sumar. Getty/Ben Whitley

Samtök atvinnumanna í tennis, ATP, hafa gefið út nýjar hitareglur sem gilda frá og með keppnistímabilinu 2026. Reglurnar hafa það markmið að verja keppendur fyrir miklum hita í leikjum sínum.

ATP mun nú leyfa leikmönnum á mótaröð karla að taka tíu mínútna kælingarhlé í þriggja setta einliðaleikjum.

Það fyndna er að karlarnir eru mörgum áratugum á eftir konunum.

Reglan er nefnilega svipuð þeim aðgerðum sem WTA, sem stjórnar atvinnumennsku í tennis kvenna, innleiddi fyrir meira en þrjátíu árum til að vernda leikmenn í hita.

„Viltu að leikmaður deyi á vellinum?“

Á Shanghai Masters-mótinu í október fór hitinn upp í 34 gráður á celcius og rakastigið var áttatíu prósent yfir daginn. Eftir að Holger Rune, sem er í 15. sæti heimslistans, þurfti á læknisaðstoð að halda í þriðju umferð spurði Daninn dómara: „Viltu að leikmaður deyi á vellinum?“

Í yfirlýsingu frá ATP sagði að stefnan væri til að „auka vernd leikmanna sem keppa við erfiðar aðstæður“.

Nýja reglan byggir á Wet Bulb Globe Temperature (WBGT) mælingunni, sem mælir hitastreitu í beinu sólarljósi. Hún felur í sér að fylgst er með hitastigi, rakastigi, vindhraða, sólarhorni og skýjahulu.

Ef WBGT-mælingin nær 30,1 gráðum eða hærra í fyrstu tveimur settunum í þriggja setta leik getur hvor leikmaður sem er óskað eftir tíu mínútna hléi til að kæla sig niður.

Undir eftirliti læknateymis ATP geta leikmenn drukkið vökva, skipt um föt, farið í sturtu og fengið þjálfun.

Leikur verður stöðvaður þegar WBGT fer yfir 32,2 gráður.

Vernda heilsu leikmanna

„Nýja hitareglan býður upp á skipulagða, læknisfræðilega studda nálgun til að takast á við mikinn hita, með það að markmiði að vernda heilsu leikmanna, en jafnframt bæta aðstæður fyrir áhorfendur, dómara, boltasækja og starfsfólk mótsins,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Leikmenn hafa látið í sér heyra um erfiðar hitaaðstæður á mótum karla og kvenna, bæði á mótaröðinni og á risamótum undanfarin ár. Shanghai Masters og Wuhan Open mótin í ár – sem einnig voru haldin í október – fengu gagnrýni fyrir kæfandi aðstæður.

Hin breska Emma Raducanu þurfti að hætta keppni í fyrstu umferð í Wuhan vegna svima, 24-faldur risamótsmeistari Novak Djokovic lýsti hitanum í Sjanghæ sem „hrottalegum“, Giovanni Mpetshi Perricard sagðist hafa liðið eins og hann væri „að deyja á vellinum“ vegna rakans og Jelena Ostapenko sagðist hafa „fengið hitaslag“ eftir að hafa hætt keppni vegna veikinda.

Hitaregla WTA kvenna hefur verið í gildi síðan 1992 og er notuð allt árið um kring á öllum mótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×