Fótbolti

Benítez lét Sverri byrja og flaug á­fram í bikarnum

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi Ingason er kominn í 8-liða úrslit gríska bikarsins með Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason er kominn í 8-liða úrslit gríska bikarsins með Panathinaikos. Getty/Alex Pantling

Sverrir Ingi Ingason var í hjarta varnar Panathinaikos í dag þegar liðið vann 2-1 útisigur gegn Kavala og komst í gegnum tvö stig gríska bikarsins í fótbolta.

Í gríska bikarnum er fyrst keppt í stórri tuttugu liða deild þar sem tólf lið komast svo áfram í útsláttarkeppnina. Fjögur efstu liðin komast beint í átta liða úrslit og þar á meðal er Panathinaikos sem vann alla fjóra leiki sína.

Filip Mladenovic kom Panathinaikos yfir í dag, á 18. mínútu, en heimamenn jöfnuðu úr vítaspyrnu á 35. mínútu. Vicente Taborda skoraði svo sigurmarkið snemma í seinni hálfleik.

Sverrir lék allan leikinn og fékk gult spjald á 71. mínútu.

Rafa Benítez, hinn reynslumikli stjóri Panathinaikos, hefur verið afar spar á krafta Sverris í deildarleikjum liðsins og frekar treyst á íslenska miðvörðinn í bikarleikjum og í Evrópudeildinni. Það virðist hafa gengið ágætlega upp og auk árangursins í bikarnum er Panathinaikos nú í 15. sæti af 36 liðum í Evrópudeildinni, þegar tvær umferðir eru eftir, með góða möguleika á að komast í útsláttarkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×