Handbolti

Teitur fer á EM sem horna­maður í stað Sig­valda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson kemur nú inn í hópinn sem hornamaður en ekki sem skytta.
Teitur Örn Einarsson kemur nú inn í hópinn sem hornamaður en ekki sem skytta. Getty/Sanjin Strukic

Sigvaldi Björn Guðjónsson er ekki í íslenska EM-hópnum sem tilkynntur var með viðhöfn í Arion-banka í dag en Evrópumótið hefst 15. janúar næstkomandi.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, tilkynnti í dag hvaða átján leikmenn verða með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.

Þriðja mót Snorra

Þetta er þriðja stórmót Snorra með liðið en fjórtánda Evrópumótið í röð þar sem Ísland er meðal þátttökuþjóða.

Snorri hafði áður valið 35 manna úrvalshóp en nú valdi hann þá leikmenn sem munu taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd.

Af þeim átján sem Snorri valdi fyrir heimsmeistaramótið í fyrra eru fimmtán aftur með í ár. Það eru allir nema þeir Aron Pálmarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson.

Þorsteinn á bakvakt

Þorsteinn Leó Gunnarsson er ekki meðal þessara átján sem voru valdir í dag en hann er á bakvakt með markverðinum Einari Baldvin Baldvinssyni.

Þorsteinn er að glíma við meiðsli en er að koma til baka úr þeim. Ef æfingar ganga vel þá mun hann fara út á EM sem nítjándi maður í hópnum.

Þetta eru tímamót fyrir hægri hornastöðu íslenska landsliðsins. Sigvaldi Björn Guðjónsson var búinn að vera með á sjö stórmótum í röð með íslenska landsliðinu eða öllum mótum frá og með HM 2019.

Aron Pálmarsson lagði svo skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og var því augljóslega ekki í boði fyrir þetta mót. 

Koma saman 2. janúar

Landsliðið kemur saman til æfinga hér á landi 2. janúar næstkomandi. Áður en liðið fer á Evrópumótið mun liðið spila við Slóveníu í undanúrslitum á æfingamóti í París í Frakklandi og mæta svo annaðhvort Frakklandi eða Austurríki í hinum leiknum.

Fyrsti leikurinn hjá íslensku strákunum á mótinu er á móti Ítalíu 16. janúar en Ísland er einnig með Póllandi og Ungverjalandi í riðli.

  • EM-hópur Íslands 2026:
  • Markmenn
  • Björgvin Páll Gústavsson, Val
  • Viktor Gísli Hallgrímsson, FC Barcelona
  • Vinstri hornamenn
  • Bjarki Már Elísson, Veszprém
  • Orri Freyr Þorkelsson, Sporting
  • Vinstri skyttur
  • Haukur Þrastarson, Rhein-Neckar Löwen
  • Elvar Örn Jónsson, Magdeburg
  • Leikstjórnendur
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson, Magdeburg
  • Janus Daði Smárason, Pick Szeged
  • Hægri skyttur
  • Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg
  • Viggó Kristjánsson, Erlangen
  • Kristján Örn Kristjánsson, Skanderborg
  • Hægri hornamann
  • Óðinn Þór Ríkharðsson, Kaddetten Schaffhausen
  • Teitur Örn Einarsson, Gummersbach
  • Línumenn og varnarmenn
  • Arnar Freyr Arnarsson, Melsungen
  • Einar Þorsteinn Ólafsson, Hamburg
  • Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach
  • Ýmir Örn Gíslason, Göppingen
  • Á bakvakt
  • Þorsteinn Leó Gunnarsson, Porto

  • Einar Baldvin Baldvinsson, Aftureldingu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×