Handbolti

Síðasta verk­efni reyndist dýrt fyrir Sig­valda

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigvaldi datt úr hópnum vegna meiðsla í síðasta landsliðsverkefni og missti þar með sæti sitt í liðinu á EM í janúar.
Sigvaldi datt úr hópnum vegna meiðsla í síðasta landsliðsverkefni og missti þar með sæti sitt í liðinu á EM í janúar. vísir

„Spurning sem mig grunar að brenni á mörgum er valið á hornamönnunum“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson á blaðamannafundi þar sem EM-hópurinn var kynntur.

Klippa: Snorri Steinn útskýrir valið á hornamönnunum

Reynslan varð fyrir valinu í vinstra horninu

Landsliðsþjálfarinn valdi þá Orra Frey Þorkelsson og Bjarka Má Elísson í vinstra hornið en skilur Stiven Tobar Valencia eftir heima. Snorri segir ekkert við Stiven að sakast, reynsla Bjarka vó bara þyngra þegar hann valdi hópinn.

„Ég hef verið að hreyfa aðeins við þessu og prófa. Stiven var til dæmis í Þýskalandi með okkur um daginn og stóð sig frábærlega, í raun er ekkert út á hans frammistöðu að setja… Mér fannst gott að vita af Bjarka, með alla hans reynslu sem leikmaður og landsliðsmaður. Mér fannst mikilvægt, og sérstaklega í ljósi þess að þetta er fyrsta stórmótið án Arons Pálmarssonar, að henda ekki út 2-300 leikja reynslu á einu bretti, og þar fyrir utan er Bjarki Már bara frábær hornamaður.“

Óðinn fyrsti kostur í hægra horninu

Í hægra hornið valdi Snorri þá Óðin Þór Ríkharðsson og Teit Örn Einarsson en skildi Sigvalda Björn Guðjónsson eftir heima.

„Það er svosem ekkert leyndarmál að Óðinn Þór er hugsaður sem fyrsti kostur en ég tek Teit með sem hornamann og ekkert annað. Hann sinnir þessu hlutverki hjá félagsliði sínu, Gummersbach, spilar bakvörð í vörn og horn í sókn, þegar það á við… Ég held að það verði mikilvægt þegar líður á mótið að geta hvílt menn eins og Ómar Inga.“

Sigvaldi missti sætið í síðasta verkefni

Snorri sagði síðasta landsliðsverkefni, æfingaleikina tvo gegn Þýskalandi í nóvember, hafa reynst dýrt fyrir Sigvalda Björn, sem datt út úr hópnum á síðustu stundu vegna meiðsla. Inn kom þá Teitur Örn Einarsson og hirti af honum stöðuna. 

Sigvaldi verður því ekki í hópnum á EM en hann hefur átt fast sæti á öllum stórmótum síðan 2019. 

„Þegar uppi er staðið þá var vikan í Þýskalandi dýr fyrir hann. Það var planið og meiningin að láta hann spila bakvörð og prófa hann. Hann hefur gert það ágætlega í Kolstad en mér leið betur með þetta val.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×