Viðskipti innlent

Breyta nafni Öl­gerðarinnar

Árni Sæberg skrifar
Andri Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar og verður forstjóri Beru.
Andri Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar og verður forstjóri Beru. Vísir/Vilhelm

Stjórn Ölgerðarinnar tók ákvörðun á fundi þann 18. desember 2025 að hefja undirbúning að breyttu skipulagi samstæðu Ölgerðarinnar. Nýtt dótturfélag með sama nafni verður stofnað um þá starfsemi Ölgerðarinnar sem snýr að drykkjarvöruhluta fyrirtækisins. Samhliða því verður nafni móðurfélags samstæðunnar, sem verður áfram skráð í kauphöllinni, breytt í Bera.

Þetta segir í afkomutilkynningu Ölgerðarinnar fyrir fyrstu níu mánuði fjárhagsársins. Þar segir að nafnið Bera hafi sögulega og skýra tengingu við Ölgerð Egils Skallagrímssonar, þar sem það sé nafn móður Egils Skallagrímssonar og jafnframt dóttur hans.

Eftir breytingarnar verði rekstrarfélögin, Kjarnavörur, Gæðabakstur, Collab, Iceland Spring, Danól, G7-11 fasteignafélag og Ölgerðin systurfélög og í eigu móðurfélagsins sem jafnframt veitir félögunum stoðþjónustu.

Skýrari skil milli rekstrarfélaga

Undir hatti Beru verði meðal annars mannauðssvið, stafræn þróun, rekstur tölvukerfa, sjálfbærni, rekstur vöruhúsa, innkaup á aðföngum og þjónustu, auk þess sem móðurfélagið muni veita dótturfélögunum þjónustu á fjármálasviði. Þannig megi segja að öll stoðþjónusta verði sameiginleg og þar með hægt að nýta enn betur stærðarhagkvæmni samstæðunnar.

Með þessu fyrirkomulagi sé ráðgert að skýrari skil verði á milli einstakra rekstrarfélaga í samstæðunni og að veiting stoðþjónustu frá móðurfélaginu verði skilvirkari. Um leið geti hvert og eitt rekstrarfélag, þar með talin Ölgerðin, einbeitt sér að sinni kjarnastarfsemi. Nýja skipulagið einfaldi jafnframt frekari vöxt með nýjum einingum. 

Andri stýrir bæði móður- og dótturfélagi

Andri Guðmundsson, forstjóri móðurfélagsins Beru, muni jafnframt stýra Ölgerðinni.

Þessar breytingar séu háðar leyfisveitingum frá opinberum aðilum og samþykki hluthafafundar Ölgerðarinnar. Til hluthafafundar verði boðað fljótlega á nýju ári þegar undirbúningi verður að mestu lokið.

„Dótturfélög Beru verða mun sjálfstæðari með þessum hætti, framtíðarvöxtur hvers félags fyrir sig styrkist, rekstrartölur félaganna verða enn skýrari, vöruþróun eflist og skil milli vinnustaðamenningar og markaðssóknar hvers félags bætist til muna. Með nýju skipulagi nýtist stærðarhagkvæmni móðurfélagsins, til dæmis á sviði stafrænnar umbreytingar, sjálfbærni og sterkri fyrirtækjamenningu, öllum félögunum til góða,“ er haft eftir Andra.

Útfutningur skilaði minna en í fyrra

Helstu niðurstöður stjórnendauppgjörs Ölgerðarinnar fyrstu 9 mánuði fjárhagsársins 2025 eru eftirfarandi:

  • Vörusala samstæðu Ölgerðarinnar jókst um 4,1% miðað við sama tímabil á síðasta ári.
  • EBITDA fyrstu 9 mánuðina var 3.842 millj. kr. samanborið við 3.872 millj. kr. árið áður.
  • EBITDA Iceland Spring og Collab útflutnings lækkaði um 296 millj. kr. miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Innlendur hluti starfseminnar skilar 7% hærri EBITDA og 6% meiri hagnaði en á sama tímabili 2024.
  • Hagnaður eftir skatta var 1.825 millj. kr. samanborið við 1.980 millj. kr. árið áður





Fleiri fréttir

Sjá meira


×