Sport

Stjórnin leyst frá störfum eftir að tólf ára drengur drukknaði

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Yasser Idris er formaður sundsambands og Ólympíunefndar Egyptalands.
Yasser Idris er formaður sundsambands og Ólympíunefndar Egyptalands.

Stjórnarmenn egypska sundsambandsins og Ólympíunefndar Egyptalands hafa verið settir í leyfi frá störfum á meðan réttað verður í dómsmáli sem varðar drukknun tólf ára drengs.

Youssef Mohamed drukknaði á sundmóti fyrir keppendur tólf ára og yngri þann 2. desember, eftir að hafa eytt meira en tíu mínútum hreyfingarlaus í vatninu án þess að nokkur tæki eftir.

Málið vakti mikil viðbrögð í Egyptalandi og skipuleggjendur mótsins voru harðlega gagnrýndir fyrir að huga ekki nægilega að öryggismálum.

Saksóknarar kröfðust þess í fyrradag að málið yrði tekið tafarlaust fyrir sem sakamál. Reuters greindi frá.

Yasser Idris, formaður sundsambands og Ólympíunefndar Egyptalands, yrði ákærður ásamt framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum sundsambandsins, mótastjórum, dómurum og lífvörðum mótsins.

Þeir eru sakaðir um alvarlega embættisvanrækslu.

Öllum sundmótum í Egyptalandi var frestað eftir andlát Youssefs Mohamed af virðingu við fjölskyldu hans og almenningsálit.

Sundsambandið og formaðurinn Yasser Idris hafa að öðru leiti ekki tjáð sig um málið. 

Íþróttamálaráðuneyti Egyptalands setti sig í samband við alþjóða sundsambandið í dag til að koma á fót tímabundinni nefnd sem mun sinna störfum stjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×