Erlent

Fjórir göngu­menn látnir eftir snjó­flóð í Grikk­landi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Göngumenn á ferð um Vardousia-fjöllin í Grikklandi. Mynd úr safni.
Göngumenn á ferð um Vardousia-fjöllin í Grikklandi. Mynd úr safni. Getty

Fjórir göngumenn sem týndust á jóladegi í Grikklandi hafa fundist látnir. Mennirnir mundust grafnir undir snjóflóði í Vardousia fjöllunum.

Lík göngumannanna, þriggja karla og einnar konu, fundust seint á föstudagskvöldi eftir umfangsmikla leit viðbragðsaðila í fjalllendi Fokida héraðs í miðju Grikklandi, að því er greint frá hjá BBC.

Slökkviliðsmenn fundu líkin að hluta til undir snjónum í brattri hlíð á erfiðum göngukafla nálægt tindinum Korakas, sem er í um tvö þúsund metra hæð.

Yfirvöld telja að fólkið hafi lent undir snjóflóði. Þau hafi lagt af stað í góðu veðri, en aðstæður hafi fljótlega versnað, sérstaklega eftir því sem þau fóru hærra upp í fjöllin.

Vasalis Vathrakogiannis hjá slökkviliðinu í Grikklandi, segir við BBC að leitaraðstæður hafi verið erfiðar.

„Veðurfarið var ekki gott, það var kalt og slæmt skyggni. Það voru ekki góðar aðstæður til að vera með dróna eða leita í þyrlum,“ segir hann.

Fram kemur hjá BBC að um sé að ræða sérstaklega erfitt svæði fyrir slíka leit.

„Þetta er í svona þriggja klukkustunda fjarlægð frá þorpinu Athanasios Diakos, í tvö þúsund metra hæð,“ segir Haris Asariotakis, sem fer fyrir björgunaraðgerðum á svæðinu.

Líkin fundust seint á föstudagskvöldi en aðgerðir standa yfir þar sem verið er að ferja líkin niður til byggða.

Tekist hefur að flytja eitt líkið niður með aðstoð þyrlu, en unnið er að flutningi hinna þriggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×