Erlent

„Mark­mið mitt var bara að ná byssunni af honum“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Al Ahmed er talinn hafa bjargað mörgum mannslífum þegar honum tókst að hafa byssuna af öðrum árásarmanninum á Bondi strönd.
Al Ahmed er talinn hafa bjargað mörgum mannslífum þegar honum tókst að hafa byssuna af öðrum árásarmanninum á Bondi strönd. Skjáskot

„Markmið mitt var bara að ná byssunni af honum og stoppa hann í því að myrða fólk og taka saklaus líf,“ segir Ahmed al Ahmed, maðurinn sem hljóp að öðrum árásarmannanna á Bondi strönd í desember og tók af honum byssuna. „Ég veit að ég bjargaði mörgum lífum en ég finn til með þeim sem létust.“

Al Ahmed vakti athygli út um allan heim með hetjudáð sinni en menn eru á einu máli um að hann hafi bjargað fjölda mannslífa, þar sem feðgarnir Naveed og Sajid Akram skutu á fólk af handahófi á ströndinni í Nýju Suður Wales í Ástralíu. Þar hafði fólk safnast saman til að fagna ljósahátíð gyðinga. Sajid, 50 ára, var skotinn til bana af lögreglu en Naveed handtekinn. Hann hefur verið ákærður fyrir að myrða fimmtán og reyna að myrða fjörutíu í viðbót.

„Ég stökk í bakið á honum og lamdi hann,“ sagði al Ahmed í viðtali við CBS sem verður birt í dag. „Ég hélt honum með hægri hendinni og sagði orð, þú veist, til að vara hann við. Slepptu byssunni þinni, hættu að gera það sem þú ert að gera, og þetta gerðist allt mjög hratt.“

Hann segir eitthvað innra með sér hafa stjórnað því að hann réðist á byssumanninn.

„Ég vildi ekki sjá fólk drepið fyrir framan mig, ég vildi ekki heyra í byssunni hans, ég vildi ekki sjá fólk öskra og biðja um hjálp. Og þetta var sálin mín að segja mér að gera þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×