Umræðan

Ís­lands­bankaút­boðið varðar leiðina

Magnús Harðarson skrifar

Viðburður ársins á íslenska hlutabréfamarkaðnum var án alls vafa sala ríkisins á eftirstandandi hlut sínum í Íslandsbanka í stærsta almenna útboði Íslandssögunnar. Í útboðinu voru seld hlutabréf fyrir 90,6 milljarða króna og öllum að óvörum keypti almenningur, nánar tiltekið 31 þúsund manns, nær öll hlutabréfin. Fleiri einstaklingar keyptu hlutabréf í Íslandsbanka en áttu hlutabréf í öllum skráðum félögum fyrir útboðið. Fyrir vikið fjölgaði almennum fjárfestum á íslenska markaðnum um nálægt helming á árinu. Það er merkileg niðurstaða í ljósi hás vaxtastigs og engra nýskráninga frá því að JBT Marel tók sæti Marel í Kauphöllinni í upphafi árs.

Óvæntur slagkraftur almennings

Íslandsbankaútboðið sýnir líka magnaðan og oft vanmetinn mátt almennings. Það hefði þurft ansi marga stóra fagfjárfesta, innlenda sem erlenda, til að jafna fjárhæðirnar sem almenningur kom með að borðinu. Þegar félög hafa spennandi sögu að segja sem fangar hug fólks, þá getur almenningur verið mikilvægur bandamaður, fái hann tækifæri til að vera með. Æ fleiri félög eru að átta sig á þessu. Þrátt fyrir tíðindalítið ár í nýskráningum er mikill áhugi á skráningu á markað, sem sést t.a.m. í fjölda fyrirtækja sem hafa lýst opinberlega áformum um skráningu og góðri þátttöku í skráningarakademíu Nasdaq Iceland, sem við hleyptum af stokkunum í nóvember.

Hin hliðin á peningnum er að með þátttöku í útboðinu fékk almenningur viðbótartækifæri til að ávaxta pund sitt. Og pundið hefur ávaxtast ágætlega, hlutabréfaverð Íslandsbanka nú (22. des.) er 35% yfir útboðsverðinu. Það þýðir að verðmæti hlutanna sem seldir voru í útboðinu 15. maí hefur hækkað um tæpa 32 milljarða.

Gullið tækifæri - skattalegir hvatar og fjárfestingarreikningar

Ekki þarf að koma á óvart að viðskipti einstaklinga með hlutabréf hafa aukist töluvert í framhaldi af Íslandsbankaútboðinu. Á tímabilinu júní til nóvember jukust hlutabréfaviðskipti einstaklinga um 119% að krónutölu frá fyrra ári og fjöldi viðskipta einstaklinga jókst um 102%. Þar vega þyngst aukin viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka, þar sem einstaklingar hafa að stórum hluta verið að innleysa hagnað eftir útboðið. En viðskipti almennings með önnur hlutabréf jukust einnig eða um 56% að krónutölu á milli ára og 67% talið í fjölda viðskipta, og þarna kom aukningin að stórum hluta til á kauphliðinni.

Ólíkt hlutabréfamarkaði ber ekki mikið á beinni fjárfestingu heimila á skuldabréfamarkaði. Fjárfesting heimilanna í skuldabréfum er nánast bundin við óbeinar fjárfestingar í gegnum verðbréfasjóði og lífeyrissjóði.

Íslandsbankaútboðið var áhrifaríkt og sýndi tækifærin í aukinni þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði, sem getur leyst úr læðingi mikla orku til uppbyggingar atvinnulífsins og aukið ávöxtunarmöguleika heimilanna og hlutdeild þeirra í arðinum af atvinnulífinu. Eðli málsins samkvæmt verður útboðið hins vegar ekki endurtekið og ekki er við því að búast að svipuð útboð verði reglulegir viðburðir. En það er ýmislegt annað til ráða og þar ber hæst hugmynd sem hefur fengið vængi í umræðunni að undanförnu en það eru svokallaðir fjárfestingar- og sparnaðarreikningar, eins og þekkjast t.d. í Svíþjóð og Bretlandi. Þessir reikningar sameina skattalega hvata til hlutabréfafjárfestinga og einfaldleika, þar sem t.d. skattskil eru leikur einn. 

Í erindi sínu á ráðstefnu SFF og Nasdaq Iceland í nóvember um leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn nefndi fjármála- og efnahagsráðherra möguleikann að rýmka heimildir einstaklinga til skattfrjálsra fjárfestinga í hlutabréfum að fordæmi Breta. Við í Kauphöllinni teljum að það yrði til mikils gagns eins og við fórum yfir í umsögn okkar við drög að atvinnustefnu Íslands – vaxtarplani til 2035.

Skuldabréfamarkaðurinn og almenningur

Ólíkt hlutabréfamarkaði ber ekki mikið á beinni fjárfestingu heimila á skuldabréfamarkaði. Fjárfesting heimilanna í skuldabréfum er nánast bundin við óbeinar fjárfestingar í gegnum verðbréfasjóði og lífeyrissjóði. En þetta er ekki alls staðar með þessum hætti. Á Nasdaq mörkuðunum í Eystrasaltsríkjunum þekkist t.d. að almenningur taki þátt í skuldabréfaútboðum með virkum hætti. Gott dæmi um þetta er útboð eistneska orkufyrirtækisins Eesti Energia í maí þar sem rúmlega 4.700 almennir fjárfestar tóku þátt. Þá tóku yfir 7.300 almennir fjárfestar þátt í skuldabréfaútboði eistneska ríkisins í september 2024 sem beint var sérstaklega til almennings. Í því hávaxtaumhverfi sem við búum við í dag gæti þetta verið leið fyrir ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki að afla betri kjara og fyrir einstaklinga að fá enn hærri vexti en bjóðast á bankareikningum.

Heimilin eiga nú yfir 1.800 milljarða á bankareikningum. Slagkraftur þeirra til fjárfestinga er því mikill og varla sást högg á vatni eftir Íslandsbankaútboðið. Tækifærin í ofangreindum aðgerðum til aukinna fjárfestinga, bættrar ávöxtunar og betri lífskjara eru því umtalsverð.

Höfundur er forstjóri Kauphallarinnar á Íslandi (Nasdaq Iceland).


Tengdar fréttir

Lykil­at­riði að efla skulda­bréfa­markaðinn til að ná niður vöxtum á íbúðalánum

Ef það á að takast að ná niður vaxtakjörum á íbúðalánum á Íslandi er „lykilatriði“ að auka aðgengi almennings að skuldabréfamarkaði, sem er núna nánast einokaður af lífeyrissjóðum, og þannig skapa forsendur fyrir því að hægt sé að bjóða upp á langtímafjármögnun, samkvæmt nýrri greiningu. Hlutur einstaklinga á skuldabréfamarkaði er hverfandi, sem er meðal annars afleiðings íþyngjandi regluverks, en þeir beina fjármagni sínu fremur í innlán vegna skorts á öðrum áhættulitlum fjárfestingarkostum.

Metþát­taka al­mennings í út­boði Ís­lands­banka lyftir upp öllum markaðinum

Hlutabréfaverð flestra félaga í Kauphöllinni hefur rokið upp í morgun eftir að ljóst varð að tugir þúsunda almennra fjárfesta kaupa nánast allan 45 prósenta hlut ríkissjóðs Íslandsbanka, en væntingar standa til þess að veruleg þátttaka almennings í útboðinu muni í framhaldinu styðja við hlutabréfamarkaðinn. Eftir snarpa gengisstyrkingu krónunnar á meðan útboðinu stóð hefur hún núna lækkað nokkuð sem af er degi enda ljóst að ekkert verður af aðkomu erlendra fjárfesta, eins og vonir stóðu til.




Umræðan

Sjá meira


×