Warren Buffett hefur lengi verið þekktur og dáður um allan heim fyrir að gera eitthvað sem er í meginatriðum hversdagslegt. Hann er ekki frábær listamaður, uppfinningamaður né methafi í íþróttum. Þess í stað fann hann snilligáfu sinni farveg í þeirri einföldu list að kaupa tiltekin hlutabréf og forðast önnur. Buffett sjálfur hefur kallað þetta verkefni „einfalt, en ekki auðvelt.“ Þó milljónir fjárfesta kaupi og selji verðbréf á hverjum degi, státar enginn af sama árangri og hann, eins stöðugt og jafn lengi og hann hefur gert.
Starfslok Buffetts við 95 ára aldurinn eru tímamót til að velta þeim eiginleikum fyrir sér sem hafa gert hann að farsælasta fjárfesti allra tíma. Þessi linnulausa forvitni, stöðuga rökvísi, einbeitta viðleitni og auðmýkt ásamt heilindum sem hvorki auður né velgengni hefur breytt – svo ekki sé talað um sólríka bjartsýni hans á Bandaríkjunum – sem gerir hann að bandarískri fyrirmynd. Hann hefur aukið vegsemd gamaldags bandarískra gilda, frjálsra markaða, lýðræðislegs stjórnkerfis, ættjarðarástar og látlausrar gamaldags skynsemi, sem nútíminn hefur gengisfellt. Í heimi sem skortir áþreifanlega viðeigandi fyrirmyndir, er Buffett að yfirgefa sviðið og rödd hans verður sárt saknað.
Frá barnæsku hefur Warren Buffett haft bráðþroska hug á fjárfestingum og skarpan skilning á viðskiptum. Sem ungur maður í Omaha fékk hann áhuga á hlutabréfamarkaði og fjárfesti 11 ára í forgangshlutum Cities Service. Hann aflaði sér fjár með sölu á hnetum og poppi á háskólaleikjum í fótbolta, sem blaðberi The Washington Post og sem framleiðandi á vísbendingum fyrir kappreiðar. Þegar hann var 17 ára skrapaði hann saman sparifé til að kaupa kúluspil sem hann setti í rakarastofur, fjárfesting sem aflaði honum frekari fjármuna.
Snemma á tvítugsaldri fékk hann áhuga á námsleið um virðis-fjárfestingar við Columbia háskóla, listina að leita þolinmóður að kostakaupum. Í forsvari var innflytjandi, snillingurinn og fjölfræðingurinn Benjamin Graham, sem einnig rak farsælan fjárfestingarsjóð. Graham hafði skrifað bókina Security Analysis árið 1934 (ég ritstýrði síðari útgáfum) og árið 1949 gaf hann út The Intelligent Investor, sem varð þekkt sem biblía virðisfjárfesta. Buffett fékk inngöngu og myndaði náið og varanlegt samband við Graham og restin er saga eins og sagt er.
Þó milljónir fjárfesta kaupi og selji verðbréf á hverjum degi, státar enginn af sama árangri og hann, eins stöðugt og jafn lengi og hann hefur gert.
25 ára gamall og innblásinn af aðferðum Graham bauð Buffett vinum og vandamönnum þátttöku í fjárfestingarfélagi. Buffett hafði frá unga aldri mikla trú á að virðisfjárfestingar myndu margfalda fjármagnið með óvenulega góðri ávöxtun til lengri tíma. Það er eins og hann hafi séð fyrir sér hvernig auður hans myndi vaxa með tímanum ef hann tæki ekki augun af boltanum.
Hann var staðráðinn í að halda sig við það sem hann kunni, einbeitta sér að fyrirtækjum sem hann var viss um að hann gæti skilið. Árangurinn lét ekki á sér standa, var óvenjulega góður í næstum 15 ára rekstri.
Sérkennileg tegund fjárfesta
Árið 1962 keypti fjárfestingarfélagið fyrstu hluti sína í Berkshire Hathaway, eignarhlutur sem með tímanum varð persónulega mikilvægur fyrir Buffett. Berkshire, sem þá var vefnaðarfyrirtæki, var á gjafverði, lágu margfeldi af bókfærðu verði og tekjum. En fyrirtækið var að lágum gæðum, dýr innlendur rekstur sem stóð frammi fyrir áskorun innfluttrar vöru sem framleidd var með mun lægri kostnaði. Buffetts hugðist sannfæra fyrirtækið um að hætta í vefnaði og nýta sér þannig kostakaupin. Spólað fram um átta ár og Buffett varð stjórnarformaður Berkshire. Hann gerði nauðsynlegar ráðstafanir, breytti hnignandi vefnaði í trygginga- og iðnaðarsamsteypu og að ævilöngu fjárfestingarfélagi (nafni sem hann breytti aldrei) sem varð samofið hans eigin nafni.
Ein af ástæðunum fyrir því að eiga tryggingafélag var kristaltær í huga Buffetts: Slík fyrirtæki búa til haug af lausu fé sem vex þegar fyrirtækið stækkar. Þetta er þekkt sem „flot“ í orðfæri iðnaðarins, greiðslugeta sem nýtist þar til gera þarf upp tryggingarkröfur. Buffett vissi að hann gæti aukið ávöxtun Berkshire með tímanum með því að fjárfesta flotinu.
Buffett breytti Berkshire í eignarhaldsfélag með varanlegt fjármagn sem fjárfesti ekki aðeins í almennum hlutabréfum heldur einnig í heilum fyrirtækjum. Berkshire óx í eignarhaldsfélag hundruð fyrirtækja, þar á meðal BNSF Railway, Geico, NetJets og fjölmörg orku- og orkufyrirtæki og einbeitti sér að hlutabréfastöðum í Apple, American Express og Coca-Cola.
Þetta reyndist vera sigurformúlan: vettvangur þar sem Buffett safnaði fljótlega miklum meirihluta eignar sinna saman, í fyrirtæki sem hann gat einbeitt sér að. Buffett átti næstum öll upprunalegu hlutabréf sín í Berkshire Hathaway þar til nýlega, þegar hann byrjaði að minnka hlut sinn sem hluta af búskiptum sínum og góðgerðarstarfi. Persónuleg fjárfesting Buffetts í Berkshire Hathaway jókst og telst vera um 125 milljarðar dala, jafnvel eftir að hann hafði gefið marga tugi milljarða af hlutabréfum til góðgerðarmála. Enginn annar hefur nokkru sinni byggt upp slíka fjárfestingareign frá grunni. Það var eins og hann hefði lent í happdrætti með sívaxandi endurgreiðslum, ekki byggt á heppni heldur stöðugri og hagnýttri kunnáttu.
Árangur Buffetts má að miklu leyti rekja til skarpskyggni hans í virðisfjárfestingum og heilbrigðu mati á hlutum í fyrirtækjum sem hann ætlaði að halda til lengri tíma. Fjárfestingarferlið var að framkvæma umfangsmikla áreiðanleikakönnun og greiningu, eðlislæg greining á einkennum „góðra fyrirtækja“. Bíða svo þolinmóður eftir sjaldgæfri samsetningu hágæða fyrirtækis sem markaðurinn vanmat til að demba sér inn. Þá fyrst var tekið til óspilltra mála. Ef hlutabréf sem Buffett líkaði við lækkuðu í verði, keypti hann hamingjusamlega meira, sem er alls ekki eins og flestum líður þegar hlutabréf þeirra lækka.
Leyfðu mér að taka skref til baka og benda á að virðisfjárfestar, sem ég tel mig vera, eru sérkennileg tegund. Þeir hafa tilhneigingu til að vera stærðfræðilega bráðþroska og byrja snemma að safna frímerkjum eða myntum, temja kappreiðarhesta, stofna fyrirtæki, fjárfesta á hlutabréfamarkaði og finna leiðir til að eignast peninga. Þeir eru fullkomnir kostakaupahéðnar og eiga auðvelt með að fjárfesta þvert á tíðarandann. Samhljómur veitir þeim ekki friðþægingu og þeim líður jafnvel illa ef skoðun þeirra er almenn skoðun. Þó fjárfestar teljist flestir spenntir fyrir orðrómi, flugufréttum eða freistandi almenningsútboðum, eru virðisfjárfestar agaðir og einbeita sér að undirliggjandi virði fyrirtækja, arðsemi fjárfestinga, tekjum, sjóðstreymi og framtíðarhorfum.
Þeir er ekki spenntir fyrir skjótfengnum gróða heldur af óumflýjanlegri stærðfræði veldivaxta til lengi tíma. Fjármálaspekingar kalla stundum hugtakið „áttunda undur veraldar“ þegar upplýst og skynsamleg fjárfesting skilar óvenjulega góðri niðurstöðu, halda sig við hana og horfa til lengri tíma.
Ef hlutabréf sem Buffett líkaði við lækkuðu í verði, keypti hann hamingjusamlega meira, sem er alls ekki eins og flestum líður þegar hlutabréf þeirra lækka.
Þessa hugmyndafræði tileinkaði Buffett sér, reyndi aldrei við skjótfengin gróða (sem ég er alveg viss um að hann myndi segja að hann kynni ekki) og valdi heldur öryggið sem felst í því að fara sér hægt fram sem ætti að endingu að skila meiri ábatar. Að með veldisvöxtum, ef rétt yrði að því staðið, mynd það með tímanum verða áreiðanlegri eignamyndun – ef dregið upp á línuriti væri línan stöðug með stefnu til norðausturs.
Á mínum 45 ára fjárfestingarferli hefur nánast hver virðisfjárfestir sem ég hef kynnst litið upp til og dáðst að Buffett. Samfélag virðisfjárfesta þekkir árangurinn, fylgist með nýjustu viðskiptum hans og sölu og fær innsýn í hugarheim hans með því að lesa bréf hans til hluthafa sinna. Þó að sumir hafi valið að nota upplýsingarnar til að spegla eignasafn Buffetts hafa aðrir gert Berkshire Hathaway að kjarnastöðu eigna sinna. Einbeitt sér ekki að eignarhlutum hans heldur að þankaganginum, þessari tilfinningasnauðu samkvæmni og þolinmóða langtíma háttarlagi.
Tókst að forða sér frá blóma og bölmóði markaða
Hvernig gerði Buffett þetta svona vel svo lengi? Hans fimm megineinkenni í fjárfestingum eru:
1. Árvakur, fljótur, nákvæmur og einbeitt hugsun gerir honum kleift að mynda áreiðanlegar fjárfestingarákvarðanir.
2. Einfaldleiki í hugsunar, getan til að skilja hismið frá kjarnanum við greiningu á fjárfestingum.
3. Hæfni til að greina góðar fjárfestingar frá slæmum og frábærar frá sæmilegum. Innsæið og sannfæringin til að halda sig við þær bestu. Buffett, eins og gúrúinn Peter Lynch hefði orðað það, skar aldrei blómin sín né vökvaði illgresið.
4. Hæfni til að vera einbeittur yfir langan tíma og láta ekki trufla sig.
5. Andleg lipurð til að breyta stefnu sinni þegar hann fann leið til að bæta sig, eins og þegar hann hóf að leggja meiri áherslu á gæði fyrirtækja í ákvarðanatöku sinni.
Á ferli sínum tókst Buffett að forða sér frá blóma og bölmóði markaða, fjármálakreppu, stríði, heimsfaraldri og illskiljanlegri tækni sem gat af sér mörg fyrirtæki á sama tíma og hún truflaði og jafnvel ruddi mörgum öðrum í burtu.
Buffett marséraði einfaldlega í gegnum þetta allt, að því er virtist óhræddur. Eftir því sem stofnanafjármagni óx fiskur um hrygg jókst samkeppni meðal fjárfesta til muna, stækkandi hópur ungs fólks stundaði fjárfestingar, fjárhagsupplýsingar urðu aðgengilegri og sífellt stærri fjárhæðir kepptu um umframávöxtun. Buffett hélt bara áfram að sýna óvenjulega góðan árangur.
Fólk telur almennt að einhver geti orðið ríkur með því að fjárfesta í (réttu) almenningshlutafélagi, endurfjárfesta arðinum og hanga á hlutnum þegar aðrir örvænta. Við heyrum stundum sögur af húsverði, kennara eða bókasafnsfræðingi á eftirlaunum sem skrapaði saman og safnaði, fjárfesti skynsamlega og skildi eftir sig lítilsháttar auðæfi.
Þessi hugsunarháttur er á skjön við fjárfestingarhegðun samtímans um að auka fjölbreytni í eignasafni til að draga úr áhættu, sem hefur þau áhrif að margir auka fjölbreytni á kostnað bestu kostanna.
Buffett sýndi eitthvað miklu meira, að þú gætir orðið einn ríkasti maður í heimi með því að gera það. Ekki með því að nota ótrausta reiknirita sem skafa aur eða tvo af öllum viðskiptum, heldur með því að beita skynsemi við kaup og halda hlutum í hágæða fyrirtækjum sem eru skráð á markaði. Buffett er á sinn hátt bæði einhyrningur og meðalljón að kaupa hlutabréf í vel þekktum fyrirtækjum. Munurinn er að dæmigerður meðalmaður ver hins vegar ekki löngum stundum í að skoða stafla af ársskýrslum fyrirtækja, skýringu eftir skýringu til að fá innsýn í reksturinn.
Buffett var dæmigerður langtímaeigandi fyrirtækja sem hann fjárfesti í. Viðmiðið sem hann setti sér við að eignast nýtt nafn var hátt og hann mælti með því að fjárfestar tækju sjaldan nýjar stöður, því það eru svo margar verðmætar hugmyndir til staðar. Hann var ónæmur fyrir tilhneigingu margra fjárfesta sem einbeita sér að leiðandi atvinnugeirum eða heitustu tækninni og með tímanum þjónaði þetta honum afar vel.
Hann talaði fyrir gataspjaldi sem hugmyndafræði fyrir upprennandi fjárfesta, með aðeins 20 götum til að nota yfir ævinna. Enginn fylgir þessari hugmynd í raun og veru (fá okkar gætu raunverulega sýnt þann aga), en hugmyndin er engu að síður góð áminning um að þegar við finnum virkilega sannfærandi fjárfestingu ættum við ekki að vera hrædd við að stækka eignastöðuna. Þessi hugsunarháttur er á skjön við fjárfestingarhegðun samtímans um að auka fjölbreytni í eignasafni til að draga úr áhættu, sem hefur þau áhrif að margir auka fjölbreytni á kostnað bestu kostanna.
Buffett hefur oft tekið fram að hann hafi notið góðs af æðruleysi á ferlinum og að sumu leyti gerði hann það. Með eigin orðum vann hann í „eggjastokka lottóinu,“ fæddur við góða heilsu, með fínan heila í tveggja foreldra fjölskyldu sem bjó við þokkalegan kost. Hann var alinn upp í Nebraska, fylki þar sem fólk leggur metnað sinn í að hugsa sjálfstætt á stað þar sem hann lærði að gamaldags dyggðir eins og iðnaður, sparnaður og orðheldni skiptir máli. Faðir hans var kaupsýslumaður og lauk starfsævinni sem þingmaður í fulltrúadeildinni.
Nebraska var nægilega langt frá Wall Street til að gera hópþrýsting ekki að veigamiklum þætti í faglegum þroska Buffetts. Buffett benti á það í nóvember að: „Miðja Bandaríkjanna var mjög góður staður til að fæðast, mynda fjölskyldu og byggja upp fyrirtæki.“ Hann hefur reglulega bent á að það var hagstætt að vera bandarískur og einbeitti sér fyrst og fremst að fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Réttarríkið þýddi hæfilega jöfn samkeppnisskilyrði og þar sem markaðshæf verðbréf voru í miklu magni til að greina og velja á milli. Að vera langur í bandarískum hlutabréfum á seinni hluta aldarinnar var sannarlega gott. Fáir stórir hlutabréfamarkaðir sýndu eins góða ávöxtun og sá bandaríski á æviskeiði hans.
Buffett var ekki aðeins fjárfestir; hann var líka djúpur hugsuður, reyndi stöðugt að bæta sig, leitaði nýrra leiða og lærði af mistökum sínum. Þar sem hann var virðisfjárfestir allan sinn feril, varð hann fyrir miklum áhrifum frá öðrum hugsuðum eins og Philip Fisher, sem og langvarandi vinar síns og samstarfsmanns Charlie Munger.
Fyrir vikið betrumbætti hann nálgun sína og einbeitti sér að góðum undirliggjandi rekstri í stað þess að kaupa bara ódýr fyrirtæki, jafnvel þegar það leiddi til þess að hann keypti upp verðið. Meiri gæði myndu líklega leiða til vaxandi og verðmætari fjárfestingar og Buffett upplýsti um þá innsýn sína á þennan hátt: „Ég reyni að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru svo dásamleg að hálfviti geti rekið þau. Vegna þess að fyrr en síðar mun það gerast.“
Frægur fyrir að gera flókin mál skiljanleg
Þegar ferill Buffett tók flugið á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var hann önnum kafinn við að velja fjárfestingar eina af annarri út frá grundvallarviðmiðum eins og hagnaði og sjóðstreymi. Á sama tíma birtu fræðimenn og brautryðjendur nýrra kenninga – „tilgátu um skilvirka markaði“ – sem héldu því fram að fjármálamarkaðir hlytu að vera skilvirkir, að allar nýjar upplýsingar sem kæmu fram myndu fljótt endurspegla rétt verð. Ef þú trúir á skilvirkni markaðarins, þá trúir þú að endingu á að enginn geti áreiðanlega sigrað markaðinn. En Buffett var lifandi dæmi þess að hægt er að vaxa og dafna með því að koma auga á tækifæri þar sem markaðir eru óskilvirkir. Árið 1984 hélt Buffett því fram í tímaritinu Columbia Business School að fræðimenn ættu að leggja kenningar sínar til hliðar og skoða gögn átta fjárfestingarsjóða (að mestu leyti reknir af vinum hans), auk sinnar eigin sögu. Innan akademíunnar var Buffett talinn einstakur. En í stað þess að rannsaka Buffett og það sem hann gerði, héldu fræðimenn í áratugi fast í sínar kenningar og fundu nýjar leiðir til að skýra sig frá velgengni hans. Jafnvel í dag er tilgátunni um skilvirkni markaða haldið að nemendum. Buffett hefur oft bent á að því fleiri nemendum sem er talin er trú um skilvirkni markaða og að grundvallar greining fjárfestinga sé tímasónum, því mun minni samkeppni og betra er að vera virðisfjárfestir.
Þótt Buffett hafi byggt upp fordæmalausan auð frá grunni á sínum ferli þá var það, að mínu mati, ekki hans mesta afrek. Heldur er hans mikilvægasta afrek hvernig hann náði fljótlega árangri og tókst síðan að halda sig á toppnum öll sín fullorðinsár, í næstum 75 ár. Við getum rökrætt það hvort Buffett hafi verið verðmætasti leikmaðurinn á meðal fjárfesta á hverju ári minnug þess að árangur hvers fjárfestis er háður sveiflum markaða og er því best mældur yfir lengri tíma. En hefði einhver nemandi fjármálamarkaða síðustu 60 ár verið beðinn um það á hverjum tíma að kjósa stjörnulið fjárfesta, þá hefði Buffett líklega verið í liðinu öll árin.
Buffett var óþreytandi; hann tók sér sjaldan frí og leyfði sér aldrei að víkja frá agaðri nálgun sinni eða forgangsraða á annan hátt. Stærstan hluta ferils síns vann hann meira og minna einn – bara Buffett og einhver bókhalds- og stjórnunarleg aðstoð. Hann var var líkt og hafnaboltagoðsögnin Cal Ripken, járnmaður í byrjunarliðinu á hverjum einasta degi. Hann var í raun einn á toppnum. Það var enginn annar fjárfestir á þeim tíma sem varð eins þekktur og enginn annar með jafn langan eða einstakan feril. Eins og veðhlaupahesturinn Secretariat sem vann Belmont Stakes árið 1973 með svo miklum mun að það skiptir engu máli hver var í öðru sæti.
Árleg bréf Buffetts höfðu svo mikil áhrif að ég tel að þau hafi breytt samskiptum flestra fagfjárfesta við viðskiptavini sína.
Buffett er hæfileikaríkur kennari og gefur sér oft tíma til að koma fram sem gestafyrirlesari í kennslustofum. Fjölmargir nemendahópar hafa flogið til Nebraska til að hitta, spyrja spurninga og láta taka mynd af sér og hlýða á véfréttina í Omaha. Í gegnum árin hafa árleg bréf Buffetts til hluthafa í Berkshire Hathaway (og jafnvel fyrri bréf hans) orðið að skyldulestri fyrir sérfræðinga í fjármálum. Ólíkt flestum óútreiknanlegum og leiðinlegum markaðsskýrendum á Wall Street varð Buffett frægur fyrir að gera flókin mál skiljanleg. Fjárfestar biða árlega spenntir eftir bréfum Buffetts. Þau voru full af eftirminnilegu orðfæri. Eins og umvöndun hans á áhættusækni: „Það er ekki fyrr en það fjarar út að maður sér hver syndir nakinn“ og hið sígilda ráð hans að: „vera hræddur þegar aðrir eru gráðugir en vera gráðugur þegar aðrir eru hræddir“ , sem og tilvitnunum frá fólki eins og Yogi Berra og Mae West.
Árleg bréf Buffetts höfðu svo mikil áhrif að ég tel að þau hafi breytt samskiptum flestra fagfjárfesta við viðskiptavini sína. Margir vogunarsjóðsstjórar og sumir verðbréfasjóðsstjórar (þar á meðal ég) hafa reynt að líkja eftir bréfum Buffetts á tvo vegu. Með því að leggja mikla áherslu á að gera sín eigin bréf ítarleg, upplýsandi og læsileg og með því að skrifa þau fyrir þá sem þekkja minna til fjárfestinga (eins og Buffett gerði) sem eru engu að síður stórir fjárfestar og eiga skilið að vita hugsunina á bak við ákvarðanir. Buffett hefur lifað í samræmi við orðatiltæki sem oft er eignað Albert Einstein: „Ef þú getur ekki útskýrt það fyrir sex ára barni, þá skilurðu það ekki sjálfur.“
Þegar fjárfestingarhæfileikar Buffetts urðu þekktari í viðskiptalífinu fór hann að nota hin þekktu árleg bréf sín til að auglýsa eftir sameiningarkostum og gaf í skyn að Berkshire væri gott heimili fyrir fjölskyldufyrirtæki þar sem hluthafar væru að leita að áreiðanlegum og stuðningsríkum eiganda. Þeir sem seldu til Berkshire þurftu ekki að óttast að fyrirtæki þeirra myndi standa frammi fyrir breyttum fyrirtækjabrag eða aukinni starfsmannaveltu (borið saman við þau sem dæmigerðir framtaksfjárfestar keyptu).
Aðferð Buffetts var að hafa umsjón með fjármagnsskipan en að öðru leyti láta þau annars að mestu eiga sig. Ólíkt „barbörunum við hliðið“, framtaksfjárfestum sem brutu stundum fyrirtækin upp og seldu einingar og fækkuðu starfsfólki til að auka skammtímahagnað, endurfjárfesti Buffett fjármagni í fyrirtækjum sem voru yfirtekin til að viðhalda þeim og stækka. Hann hafði auðmýktina til að meta þekkingu stjórnenda sem vissu venjulega miklu meira um fyrirtækin en hann sjálfur. Hann var fljótur og nákvæmur að rannsaka, ekki aðeins fyrirtækin heldur líka fólk. Náinn samstarfsmaður hans sagði mér einu sinni að það væri sennilega hans besti kostur.
Með tímanum varð Buffett einn virtasti og dáðasti forstjóri Bandaríkjanna og orðsporið breyttist í vörumerki. Hann breytti kröfunni um að skráð fyrirtæki eins og Berkshire Hathaway héldi árlega hluthafafundi í stórviðburð sem að lokum varð að pílagrímsferð hluthafa. Sumir, þar á meðal margir alþjóðlegir fjárfestar, keyptu hlutabréf í Berkshire bara til að komast á viðburðinn. Mæting á árlegum hluthafafundum flestra fyrirtækja er óregluleg, mæld í tugum eða stundum hundruðum gesta. Á sama tíma fjölgaði þeim sem fóru til að sjá og heyra frá Buffett á hverju ári í þúsundir og síðan tugþúsundir. Um 21. öldina urðu samkomurnar að einskonar Woodstock kapítalismans. Fjárfestar breyttu fundinum í helgarferð, greiningaraðilar skipulögðu viðburði og foreldrar komu með vonarstjörnur fjármálanna til að verða vitni að og læra af þessum mikla manni.
Buffett og Munger, ævilangur hugmyndafélagi hans, svöruðu spurningum frá áhorfendum í Omaha í meira en fimm klukkustundir. CNBC byrjaði að sýna fundina í beinni útsendingu. Þetta voru einu hluthafafundirnir sem fengu athygli fjölmiðla á landsvísu.
Sýningarstjórinn Buffett skipulagði sýningu á vörum Berkshire-fyrirtækisins sem hægt var að kaupa á fundinum. Þar á meðal voru See's Candies, skartgripir frá Borsheims, sófar og borðstofusett frá Nebraska Furniture Mart og tryggingarvörur frá Geico – hvergi betri staður til að gleðja viðstadda, fá ókeypis auglýsingar, byggja upp vörumerki og sýna hagnaðinn á laugardegi í maí.
Aðdáun á stöðu Buffetts varð svo mikil að þegar fólk kom á viðburðinn stoppaði það líka við á uppáhaldsveitingastöðum hans og pantaði uppáhaldsrétti hans. Ef þú borðaðir eins og hann, gætirðu kannski fjárfest eins og hann, það skaðar ekki að reyna. Þó að ég hafi aldrei farið á ársfund Berkshire og hafi aldrei átt hlutabréfin, þá borðaði ég hádegismat með Buffett á Gorat's steikhúsinu í einni ferð minni til Omaha fyrir 17 árum.
Virðingin fyrir honum í viðskipta- og fjárfestingasamfélaginu (þar á meðal einstakra fjárfesta) var svo útbreidd að hugmyndir urðu mikilvægar einfaldlega vegna þess að hann hafði sett þær fram eða stutt þær.
Hæfileikar Buffetts náðu einnig til ráðningarferla hans. Árið 2007 hóf hann mjög umtalaða leit að hæfum fjárfestingarstjórum. Eftir að hafa skoðað hundruð umsækjenda í nokkur ár réð hann að lokum tvo framúrskarandi vogunarsjóðsstjóra, Todd Combs og Ted Weschler, til Berkshire árið 2010 og 2011. Combs starfaði með Buffett til loka árs 2025 og Weschler heldur áfram með honum til þessa dags, sem er afleiðing þess sem verður að teljast ein óhefðbundnasta en samt farsælasta stjórnendaleit allra tíma.
Buffett hefur á margan hátt verið J. P. Morgan vora tíma, viðskiptameistari með hæfileikann til að róa í ólgusjó markaðaða og dæla fjármagni inn í fyrirtæki í vandræðum eins og Goldman Sachs í fjármálakreppunni 2008 og staðfesta þar með greiðslugetu þeirra. Hann hjálpaði til við að endurvekja traust á markaðnum á órólegum tímum með því að leggjast á kauphliðina þegar uppáhaldsfyrirtækin lækkuðu í verði og veita almenningi fullvissu um gildi markaða, fjármála landsins og kapítalismans. Hann hefur verið ófeiminn stuðningsmaður Bandaríkjanna og trúði staðfastlega að hlutirnir myndu alltaf ganga upp til lengri tíma litið (eins og þeir höfðu alltaf gert).
Sívaxandi auður bara leið til að mæla hagnaðinn
Oft er vitnað til hans á heimspekilegum nótum um fjölbreytt efni eins og félagslegt öryggisnet, mannúðarmál og skattprósentur. Hann benti einu sinni á að hann ætti ekki að greiða lægra skattprósentu en ritari hans og fáir gátu verið því ósammála. Virðingin fyrir honum í viðskipta- og fjárfestingasamfélaginu (þar á meðal einstakra fjárfesta) var svo útbreidd að hugmyndir urðu mikilvægar einfaldlega vegna þess að hann hafði sett þær fram eða stutt þær. Söfnun þessa mikla auðs hefur ekki breytt Buffett, eitthvað sem margir auðkýfingar geta ekki sagt. Alla sína starfsævi var hann í grundvallaratriðum sá sami og hann hafði verið þegar hann var barn: bjartsýnn, forvitinn og vel með á nótunum. Óbreytanlegt eðli hans takmarkast ekki bara við hamborgara og kirsuberjakók; með tímanum endurspegluðu viðskiptaáhugamálin æsku hans, dagblöð, járnbrautir og Dairy Queen. Buffett hefur búið í sama húsi í Omaha öll sín fullorðinsár. Hann hélt yfirleitt sömu vináttuböndunum áratugum saman. Hann safnaði ekki fínum bílum, snekkjum, dýrri listaverkum eða mörgum frístundaeignum, eins og margir af hinum ofurríku gera. Sívaxandi auður hans var bara leið til að mæla hagnaðinn (eins og risavaxinn og vaxandi hrúga af pókerpeningum), en fyrir honum var það ekki miði að nýjum fínum lífsstíl. Á einum tímapunkti fann Buffett greinilega fyrir smá sektarkennd yfir kaupum á einkaflugvél. Hann gaf henni gælunafnið „Hin óverjanlega“. Varanlegar vinsældir Buffetts, að minnsta kosti að hluta til, eru vegna varanlegrar auðmýktar hans, yfirsýnar, einlægrar undrunar og stöðugs þakklætis fyrir hvernig líf hans hefur þróast.
Eins og margir aðrir ríkir fjárfestar einbeitti Buffett sér í mörg ár nær eingöngu að eigin auði, sem og þess fjármagns sem aðrir hluthafar í Berkshire höfðu treyst honum fyrir og þeir höfðu í raun ráðið besta sjóðstjóra heims án endurgjalds. (Laun Buffetts hjá Berkshire voru í algjöru lágmarki). Buffett hefur sagt að ein ástæða þess að hann frestaði verulega persónulegu framlagi til góðgerðarmála í mörg ár væri sú að hann taldi að með því að bíða myndi hann eiga óhóflega meiri peninga til að gefa síðar meir.
Buffett hafði lengi búist við að gefa auð sinn til góðgerðarmála, en óvænt andlát fyrstu konu hans, Susan, árið 2004, setti strik í reikninginn. Hann hafði ímyndað sér að hún yrði sú sem tæki ákvarðanir um góðgerðarmál fjölskyldunnar. Það tók hann nokkur ár að koma áformum sínum í framkvæmd sem hann gerði með því að sameina krafta sína með Bill og Melindu Gates. Árið 2006 gaf Buffett 31 milljarð dala til Gates Foundation, sem þegar var vel fjármagnaður fyrir, og tvöfaldaði þannig árlega styrkveitingargetu sjóðsins. (Þetta var, og er enn, ein stærsta góðgjörð sögunnar og Buffett gaf sjóðnum meira með tímanum.)
Buffett gekk til liðs við stjórn Gates Foundation og Bill Gates tók sömuleiðis sæti í stjórn Berkshire Hathaway, þó að báðir hafi dregið sig til baka frá þessum skuldbindingum fyrir nokkrum árum.
Árið 2010, í sameiningu við Bill og Melindu Gates, stofnaði Buffett Giving Pledge, samtök sem höfðu það að markmiði að fá milljarðamæringa heimsins til að styðja góðgerðarmál. Meðlimir þurftu að heita því að þeir myndu gefa helming eða meira af auðæfum sínum, annaðhvort á lífsleiðinni eða við andlát sitt. Buffett, Bill og Melinda Gates gáfu sér tíma við væntanlega meðlimi til að sannfæra þá um að ganga í hópinn, þar á meðal með því að skipuleggja marga fundi með mér og konu minni áður en við gengum í hópinn árið 2013. Við síðustu talningu voru meðlimir Giving Pledge yfir 250 sem hafa gefið hundruð milljarða dala til framtíðar góðgerðarstarfa, tala sem líklegt er að muni aukast með tímanum. Arfleifð sem mun hafa áhrif langt inn í framtíðina. Enginn annar hefur reynt, hvað þá heldur afrekað, neitt í líkingu við þetta.
Frá unglings- til elliára hefur Buffett elskað að greina og skilja fyrirtæki. Hann rataði með góðum árangri í gegnum fjölbreytt tímabil og fór auðveldlega í gegnum flestar tegundir fjárfestinga. Ekki bara hlutabréf heldur líka skuldabréf, skráð sem óskráð tækifæri, innlend og alþjóðleg fyrirtæki, jafnvel afleiður og endurtryggingar. Þó að margir fjárfestar einbeiti sér aðeins að einum eignaflokki, málaði Buffett meistaraverk sitt með breiðasta litavali á breiðasta strigann. Hann myndaði ævilöng tengsl við æðstu stjórnendur fyrirtækja sem hann virti (einkum Katharine Graham frá The Washington Post) og var frægur fyrir að treysta stjórnendum fyrir rekstrarábyrgð á eigum Berkshire. Hann hélt áfram að standa sig vel þrátt fyrir að eignir Berkshire hafi vaxið mjög mikið (650 milljarðar dala árið 2025). Á sviði fjárfestinga verður stærð yfirleitt árangurstálmi. En stærð Berkshire dró ekki verulega úr árangri Buffetts. Undir stjórn hans óx Berkshire Hathaway úr því að vera óljós þátttakandi í bandarískum deyjandi vefnaði í billjón dala markaðsrisa, eitt stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna. Eins og stjörnuleikmaður sem sýnir snilli sína aftur og aftur, lét Buffett það oft líta út fyrir að vera auðvelt, jafnvel þegar við öll vissum að það væri það alls ekki.
Buffett hafði sagt að hann myndi draga sig til baka frá daglegu hlutverki sínu sem leiðtogi Berkshire Hathaway í lok árs 2025, þó að hann muni áfram vera stjórnarformaður fyrirtækisins. Hann hefur gefið til kynna að hann muni draga sig í hlé, hætta að skrifa hluthöfum bréf eða tala á ársfundum. Hann hefur hraðað búskiptum sínum með því að greiða verulegan hluta af persónulegum auði sínum til sjóða barna sinna.
Buffett verður sérstaklega saknað á þeim tímum þegar margir af farsælustu einstaklingunum í viðskiptalífinu virðast einbeita sér að því að græða peninga, án þess að hugsa mikið um það hvernig þeir græða þá eða hvað þeir ætla að gera við þá.
Fjárfestingarheimurinn verður öðruvísi án Warren Buffett við stjórnvölinn hjá Berkshire. Þó að ég voni að hann muni samt kjósa að láta rödd sína heyrast, þá þýða starfslok hans fyrir marga, þar á meðal mig, hnígandi norðurstjörnu. Traustvekjandi nærvera hans og þessi stöðuga rólega rödd skynseminnar sem setur nýjar óvæntar markaðshreyfingar eða efnahagslegar eða geópólitískar breytingar í rétt samhengi.
Hann byggir auð sinn á árangri í viðskiptum, en ég dáist mest að honum fyrir þann hátt sem hann lifði lífinu. Hann stýrði einu farsælasta og dáðasta fyrirtæki heims í meira en hálfa öld og gerði það ekki með áhuga á að veraða dáður heldur með því að einbeita sér stöðugt að því að gera það rétta fyrir fyrirtækið og hluthafa þess. Í hans tilfelli leiddi það til þess að hann naut enn meiri aðdáunar.
Á sviði sem tengist miklum allsnægtum og yfirburðum, hélt Buffett sig á jörðinni. Hann rak fyrirtæki sín, keypti og seldi verðbréf, tjáði sig um samfélagsleg gildi, boðaði trú sína á góðgerðarmálum og naut þess reglulega að fá sér hamborgara og Cherry Coke. Fáir sem ná sömu hæðum og Buffett lifa lífi sínu á þennan hátt. Við öll – fjárfestar, stjórnendur og einnig almenningur – erum heppin að hafa lifað á tímum Buffetts. Notið visku hans og fengið innblástur af dæmum hans.
Buffett verður sérstaklega saknað á þeim tímum þegar margir af farsælustu einstaklingunum í viðskiptalífinu virðast einbeita sér að því að græða peninga, án þess að hugsa mikið um það hvernig þeir græða þá eða hvað þeir ætla að gera við þá. Þótt þú getir gert eitthvað þýðir það ekki að þú ættir að gera það.
Nýjar kynslóðir fjárfesta munu koma fram, þar á meðal stjörnur sem munu brenna upp og aðrar munu þrauka. En út frá ævistarfinu, heildarsögu afreka hans og gildum sem liggja að baki þeim, hefur Warren Buffett sannarlega verið, og mun áfram vera, einstakur.
Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Seth A. Klarman á vefsíðu The Atlantic fimmtudaginn 18. desember síðastliðinn. Seth A. Klarman er stofnandi og forstjóri fjárfestingarfélagsins Baupost Group sem er með um 26 milljarða dala eignir í stýringu.