Fótbolti

Berst við krabba­mein

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dan Petrescu var stórkostlegur leikmaður og hefur einnig vakið athygli sem þjálfari.
Dan Petrescu var stórkostlegur leikmaður og hefur einnig vakið athygli sem þjálfari. Vísir/Getty

Rúmenska fótboltagoðsögnin Dan Petrescu berst við krabbamein samkvæmt forseta rúmensku úrvalsdeildarinnar. Staða Petrescu er sögð mjög alvarleg.

Petrescu, sem er goðsögn hjá Chelsea, er 58 ára og greindist nýlega með krabbamein. Hann undirgengst nú lyfja- og geislameðferð vegna veikindanna.

Greint var frá því snemma í desember að Petrescu væri að glíma við veikindi og að hann hefði misst 30 kíló vegna þeirra. Forseti rúmensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta segir Petrescu vera að glíma að illvígt krabbamein.

„Ég veit ekki hver nákvæm greining hans er, en þetta er mjög alvarlegt. Hann er að undirgangast geisla- og lyfjameðferð,“ segir forsetinn Gino Iorgulescu.

„Við spiluðum saman og hann vann hjá mér sem þjálfari hjá FC National. Við erum góðir vinir. Þetta eru ömurlegar fréttir,“ bætir hann við.

Petrescu ólst upp í mikilli örbrigð í Búkarest og sagður hafa æft fótboltahæfleika sína með plastávöxtum á unga aldri. Hann er einn besti fótboltamaður sem Rúmenía hefur alið og átti góðu gengi að fagna á Englandi sem og með landsliði sínu.

Hann komst í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða með Steaua Búkarest árið 1989 og átti svo glimrandi feril á Ítalíu og Englandi á tíunda áratugnum. Hann lék fyrir Sheffield Wednesday, Chelsea, Bradford City og Southampton á Englandi.

Hann var lengst hjá Chelsea, frá 1995 til 2000, þar sem hann spilaði yfir 200 leiki, vann FA-bikarinn tvisvar auk enska deildabikarsins, UEFA-bikarsins og Ofurbikars Evrópu.

Hann lék þá 95 landsleiki með sterku rúmensku landsliði, sem hann fór með á á HM 1994 og 1998, og EM 1996 og 2000.

Petrescu sneri sér að þjálfun eftir að leikmannaferlinum lauk og hefur stýrt 14 félagsliðum í átta löndum frá 2003 þar til í haust en hann hætti sem þjálfari Cluj í heimalandinu í ágúst. Hann var þá að þjálfa liðið í fjórða sinn en hann hefur stýrt því til rúmenska meistaratitilsins fimm sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×