Enski boltinn

Sol­skjær hefur lýst yfir á­huga á að snúa aftur til Manchester United

Aron Guðmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er opinn fyrir því að taka aftur við stjórn Manchester United 
Ole Gunnar Solskjær er opinn fyrir því að taka aftur við stjórn Manchester United 

Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Manchester United, hefur lýst yfir áhuga sínum á að taka við stjórn Manchester United á nýjan leik.

Ruben Amorim var í dag rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Manchester United og mun Darren Fletcher stýra liðinu í næsta leik hið minnsta. 

Forráðamenn Manchester United ræða nú næstu skref sín á milli en Ole Gunnar hefur áhuga á því að taka við sem knattspyrnustjóri liðsins óháð því hversu langur samningur hans yrði. 

Það er Fabrizio Romano sem að greinir frá þessu í kvöld í færslu á samfélagsmiðlinum X. 

Solskjær tók við Manchester United á sínum tíma til bráðabirgða eftir að José Mourinho hafði verið sagt upp störfum í desember árið 2018. 

Gott gengi undir hans stjórn til að byrja með sá til þess að Solskjær var ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United til lengri tíma en honum var sagt upp störfum í nóvember árið 2021.

Solskjær hefur verið án starfs síðan í ágúst á síðasta ári er hann var rekinn úr þjálfarastöðunni hjá tyrkneska félaginu Besiktas.

Sem leikmaður Manchester United vann Norðmaðurinn sex Englandsmeistaratitla, auk tveggja bikartitla og einu sinni vann hann Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×