Enski boltinn

Segir rugl að ætla að ræða United

Valur Páll Eiríksson skrifar
Oliver Glasner hefur gert frábæra hluti sem knattspyrnustjóri Crystal Palace.
Oliver Glasner hefur gert frábæra hluti sem knattspyrnustjóri Crystal Palace. Getty/Rob Newell

„Það er ekkert vit í því“ fyrir Oliver Glasner, þjálfara Crystal Palace, að ræða laust þjálfarastarf Manchester United, að hans sögn.

Austurríkismaðurinn Glasner er efstur í veðbönkum sem nýr þjálfari United-liðsins en samningur hans við Crystal Palace rennur út næsta sumar.

Glasner stýrði Crystal Palace til bikartitils síðasta vor og vann Samfélagsskjöldinn í haust. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt í Lundúnum eftir að hafa tekið við Palace í strembinni stöðu í febrúar 2024.

Í haust hefur hann kennt þéttu leikjaprógrammi og almennu álagi um að hann hafi ekki átt almennilegar viðræður við stjórnarmenn Palace um nýjan samning.

Glasner sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag í aðdraganda leiks Palace við Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Líkt og við var að búast var hann spurður út starfið hjá United í ljósi þess að hann veðbankar telji hann líklegastan til að taka við.

„Ég má ekki veðja svo ég skoða stuðlana ekki,“ sagði Glasner. „Ég get heldur ekki veitt innherjaupplýsingar.“

„Ég er þjálfari Crystal Palace. Það er ekkert vit í því fyrir mig að ræða þetta. Það er tímaeyðsla fyrir ykkur að spyrja mig út í þetta frekar.“

Um samningsmál sín sagði hann:

„Það er hægt að skrifa undir nýjan samning. Þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni skrifuðu undir nýjan samning í fyrra en þeir eru ekki lengur þjálfarar í deildinni í dag. Það er hægt að vinna titla en vera samt rekinn. Lengd samningsins segir lítið.“

Líkt og greint var frá á Vísi fyrr í kvöld er útlit fyrir að Ole Gunnar Solskjær taki við Manchester United tímabundið út leiktíðina á næstu dögum.

Stjórnarmenn United kaupi sér þannig tíma til að finna varanlega lausn hvað þjálfaramálin varðar og finni nýjan kost fyrir næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×