Handbolti

Þorir ekki að lofa undan­úr­slitum: „Þetta er ekki svo auð­velt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Þorgeir er einn besti handboltamaður heims og lykilleikmaður hjá íslenska landsliðinu.
Gísli Þorgeir er einn besti handboltamaður heims og lykilleikmaður hjá íslenska landsliðinu. vísir

Gísli Þorgeir Kristjánsson ræddi möguleika Íslands á EM í Brennslunni á FM957 í morgun.

Gísli Þorgeir átti frábært ár í fyrra, hann var verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar í Meistaradeildinni með sigurliði Magdeburg, sem situr ósigrað í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, og varð á meðal þriggja efstu í kjörinu um íþróttamann ársins.

Brennslubræðurnir Ríkharð Óskar Guðnason og Egill Plöder ræddu við Gísla á léttu nótunum um árið sem er að baki og stórmótið sem er að hefjast um þarnæstu helgi.

Gísli sagði frá meiðslunum sem hrjáðu hann á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar en hann er alveg heill heilsu fyrir komandi stórmót og verður þar í lykilhlutverki líkt og liðsfélagi sinn hjá Magdeburg, Ómar Ingi Magnússon.

Væntingar þjóðarinnar eru að venju miklar og því var ekki úr vegi að spyrja Gísla, hvort undanúrslit væru raunsætt markmið eða heimtufrekja?

„Sko, ég held að það séu eðlilegar pælingar. Af því að maður hugsar einhvern veginn, já þeir eru í Magdeburg sem er besta félagslið í heimi um þessar mundir. Á það ekki bara að færast beint yfir í landsliðið? Þetta er ekki svo auðvelt“ sagði Gísli.

Leikir Íslands á EM 

16. janúar: Ísland - Ítalía kl. 17

18. janúar: Ísland - Pólland kl. 17

20. janúar: Ísland - Ungverjaland kl. 19:30

„Þetta er samblanda af svo mörgum þáttum í handbolta og svo er það líka bara þannig að hin liðin eru mjög góð líka. Allir búast við því að við eigum að vinna Ítalíu og Pólland, mögulega Ungverjaland líka en staðan er bara þannig: Ef þú ert ekki hundrað prósent, þá verður þetta vesen“ bætti Gísli við.

Hann sagði íslenska landsliðið geta unnið hvaða lið sem er þegar það er á sínum degi, en sagði það líka geta tapað gegn hvaða liði sem er. Pressan sem íslenska þjóðin setur á liðið sé þó af hinu góða.

„Ég fíla pressuna, hundrað prósent. Og ef við pælum í síðasta móti þá unnum við alla nema einn leik. Við töpuðum á einhverjum erfiðasta útivelli sem til er, á móti Króatíu í Zagreb. Ég get lofað ykkur því að þetta hefði ekki verið mjög auðvelt, fyrir Dani eða hvern sem er.“

Danir líklegastir til að „outcoacha“ Ísland

Danmörk þykir einmitt líklegust til sigurs á EM, eftir að hafa unnið síðustu fjögur HM en mistekist að landa gulli á EM. Undir lok viðtalsins á Brennslunni var Gísli spurður skemmtilegra hraðaspurninga og hann sagði danska þjálfarann Nikolaj Jacobsen líklegastan til að „outcoacha“ Snorra Stein Guðjónsson.

„Danir eru helvíti sterkir sko“ sagði Gísli.

Viðtalið úr Brennslunni á FM957 má heyra í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×