Íslenski boltinn

Birta eltir ástina og semur við Genoa

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birta var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar 2025 en ekki valin í landsliðið.
Birta var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar 2025 en ekki valin í landsliðið. vísir / ívar

Birta Georgsdóttir er gengin til liðs við Genoa á Ítalíu frá Íslandsmeisturum Breiðabliks. Hún mun því spila fyrir sama lið og kærasti sinn, landsliðsmaðurinn Mikael Egill Ellertsson. 

„Birta, sem er 24 ára gömul, hefur leikið með Breiðabliki undanfarin 5 tímabil. Hún lék alls 161 leik með liðinu og gerði 65 mörk. Hún varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari á þessum tíma, auk þess sem hún hampaði bikarmeistaratitlinum í tvígang. Að loknu síðast liðnu Íslandsmóti var Birta kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins. Þá var Birta kjörin Íþróttakona Breiðabliks árið 2025, við hátíðlega athöfn í Smáranum, í gærkvöldi.

Við þökkum Birtu fyrir hennar framlag og óskum henni góðs gengis á Ítalíu“ segir í tilkynningu Breiðabliks en Birta átti eitt ár eftir af samningi sínum þar. 

Kvennalið Genoa var stofnað árið 2018 og hefur unnið sig hratt upp stigann í ítölskum fótbolta en liðið situr í næstneðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. 

Birta er í sambandi með íslenska landsliðsmanninum Mikael Agli Ellertssyni og sagði í samtali við Vísi eftir síðasta tímabil að Ítalía væri líklegasti áfangastaðurinn ef hún færi út.  

Mikael Egill er á sínu fyrsta tímabili hjá Genoa en hann var áður leikmaður Venezia á Ítalíu. 

Birta er annar Blikinn sem kveður Kópavoginn í dag. Andrea Rut Bjarnadóttir skipti yfir til Anderlecht í Belgíu fyrr í dag. Þá hefur flosnað meira úr Íslandsmeistaraliðinu, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Samantha Smith hafa einnig haldið á nýjar slóðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×