Fótbolti

Fékk gjöf frá Karó­línu Leu um leið og hún kom úr erfiðri geisla­með­ferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Þóra með treyjuna umræddu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Þóra með treyjuna umræddu. @orrirafn11

Íslenska landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vildi gleðja unga stelpu sem er að berjast við krabbamein.

Þóra var að ljúka geislameðferð í Svíþjóð þar sem hún stóð sig eins og hetja. Við komuna heim beið hennar árituð treyja frá Karólína Leu og glæsilegir takkaskór í kaupbæti. Internazionale-treyjan var auðvitað númer átta og merkt Vilhjálmsdóttir að aftan.

Karólína Lea vildi að hún fengi treyjuna og skóna strax þegar hún kæmi heim eftir erfiða meðferð til að sýna henni stuðning.

Orri Rafn Sigurðarson segir frá þessu á samfélagsmiðlum sínum og birtir mynd af Þóru en hann stendur fyrir góðgerðarverkefninu „Gleðjum saman“.

Þóra með treyjuna og skóna.@orrirafn11

Karólína ætlar síðan að hitta Þóru í næsta landsleikjaverkefni en núna er hún komin aftur til Ítalíu þar sem hún spilar sem atvinnumaður hjá ítalska stórliðinu Internazionale.

Íslenska landsliðið spilar næst tvo útileiki í marsmánuði en svo eru tveir heimaleikir með fjögurra daga millibili í apríl á móti Úkraínu ( 14. apríl) og Englandi ( 18. apríl). Karólína Lea verður þar væntanlega í stóru hlutverki en hún varð bæði markahæst og stoðsendingahæst hjá íslenska landsliðinu á árinu 2025.

Verkefnið „Gleðjum saman“ átti að vera sex til átta treyjur og gert til að skapa smá jákvæðni í kringum íþróttahreyfinguna og sýna samstöðu og sameingarkraft þeirra fyrir jólin.

„Verkefnið hefur síðan þá breyst í eitt allra skemmtilegasta og mest gefandi verkefni sem ég hef komið að eða tekið þátt í,“ skrifar Orri Rafn en yfir fimmtíu treyjur eru skráðar í verkefnið og af þeim voru 33 áritaðar treyjur afhentar í eigin persónu af leikmönnum.

Orri er líka alltaf að leita að fleiri flottum einstaklingum og tilnefningum til halda áfram að koma færandi hendi í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×