Fótbolti

„Al­gjör karakter og þú lýstir upp hvert sem þú fórst“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Åge Hareide var jarðaður í gær en útför fyrrum landsliðsþjálfara Íslands fór fram í dómkirkjunni í Molde í Noregi.
Åge Hareide var jarðaður í gær en útför fyrrum landsliðsþjálfara Íslands fór fram í dómkirkjunni í Molde í Noregi. Getty/ James Gill

Åge Hareide var jarðsunginn í dómkirkjunni í Molde í gær en þessi fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta lést 18. desember síðastliðinn, 72 ára að aldri, eftir að hafa greinst með heilaæxli fyrr á sama ári.

Bendik Hareide, sonur Åge, hóf minningarræðu sína í jarðarförinni með kveðju á nokkrum tungumálum til fyrrverandi fótboltafélaga sem faðir hans hafði starfað hjá, þar á meðal íslensku en hann þjálfaði íslenska landsliðið frá 2023 til 2024. Það var hans síðasta þjálfarastarf á ævinni.

Þú skilur eftir þig gríðarlegt tómarúm

„Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, pabbi, bæði innan vallar sem utan. Þú skilur eftir þig gríðarlegt tómarúm, en bergmálið sem við heyrum núna munum við fylla með góðum minningum,“ sagði Bendik Hareide.

„Pabbi, þú varst viti. Flest okkar eru sammála um að þú hafir verið algjör karakter og þú lýstir upp hvert sem þú fórst. Alltaf fullur af sjálfstrausti,“ sagði Bendik.

Margar minningarræður í kirkjunni

Margir höfðu fallega hluti að segja um Hareide.

Odd Ivar Moen frá Molde Fotballklubb sagði að það væri með djúpri sorg sem félagið hefði tekið við þeim tíðindum að heiðursfélagi og goðsögn félagsins, Åge Hareide, væri látinn.

Einnig héldu barnabörnin, eiginkonan Annbjørg og bróðirinn Håvard minningarræður í kirkjunni. Auk þess las sóknarpresturinn Ståle Johan Aklestad kveðju frá dótturinni Anne.

Kista Åge Hareide var borin út við tóna lagsins „Time to Say Goodbye“, sungið af Knut Marius Dybvik.

Snortnum Bendik Hareide fannst útförin vera verðugur endapunktur.

Verðug stund í anda pabba

„Við höfum kvatt pabba svolítið í einrúmi, og þetta var meira fyrir almenning. En það sem var mikilvægt fyrir okkur var að fá verðuga stund í anda pabba. Það er hjartnæmt að geta staðið hér núna og hugsað að þetta hafi verið frábær upplifun,“ sagði Bendik Hareide við NRK eftir útförina.

Eftir jarðarförina söfnuðust boðsgestir saman á Aker-leikvanginum til minningarathafnar.

„Hér inni voru mikil tár, en núna ætlum við að rifja upp góðu minningarnar. Það verða örugglega einhver tár, en mestmegnis hlátur,“ sagði Bendik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×