Viðskipti innlent

Ís­lendingar aldrei farið í fleiri utan­lands­ferðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Brottfarir fólks frá Keflavíkurflugvelli er helsti mælikvarðinn á fjölda ferðamanna sem kemur til Íslands. Tölur þaðan sýna einnig að Íslendingar ferðuðust sem aldrei fyrr árið 2025.
Brottfarir fólks frá Keflavíkurflugvelli er helsti mælikvarðinn á fjölda ferðamanna sem kemur til Íslands. Tölur þaðan sýna einnig að Íslendingar ferðuðust sem aldrei fyrr árið 2025. Vísir/Vilhelm

Brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli hafa aldrei mælst fleiri en í fyrra. Erlendum ferðamönnum fækkaði um 0,4 prósent á milli ára en fjöldinn hefur svo gott sem staðið í stað undanfarin þrjú ár.

Alls fóru um 2,25 milljónir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli árið 2025 samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Það voru átta þúsund færri brottfarir en árið 2024. Fjöldi brottfara er sá mælikvarði sem er helst notaður til þess að meta fjölda erlendra ferðamanna sem kemur til landsins.

Mesti ferðamannastraumurinn var í ágúst en þá fóru um 311 þúsund manns frá Keflavíkurflugvelli, um þrjátíu þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2024. Brottförum fjölgaði á sex mánaða tímabili sem náði frá vori fram á haust en þeim fækkaði fyrstu og síðustu þrjá mánuði ársins.

Rúmlega helmingur frá fjórum ríkjum

Bandaríkjamenn voru fjölmennasti hópurinn sem sótti Íslands heim í fyrra. Þeir voru 654 þúsund talsins og 29 prósent af heildinni. Þeim fjölgaði um 33 þúsund á milli ára.

Bretar voru næstfjölmennastir, um 233 þúsund manns og 10,3 prósent af heildinni. Þeim fækkaði um 33 þúsund frá 2024. Þar á eftir komu Þjóðverjar (6,6 prósent), Kínverjar (5,5 prósent).

Saman voru Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar og Kínverjar 51,4 prósent allra þeirra sem ferðuðust frá Keflavíkurflugvelli í fyrra.

Flestir ferðuðust í páskamánuðinum

Svo virðist sem að Íslendingar hafi aldrei ferðast meira en í fyrra. Brottfarir þeirra frá Keflavík voru 709 þúsund sem var átján prósentum fleiri en árið 2024. Fyrra metár var 2018 en þá mældust brottfarir Íslendinga 668 þúsund.

Mesti ferðamánuðurinn var apríl en þá ferðuðust 81 þúsund Íslendingar út fyrir landssteinana. Páskarnir voru í apríl í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×