Erlent

Tuga saknað eftir ruslskriðu á Filipps­eyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikið magn af rusli og braki hrundi yfir sorpvinnslustöð.
Mikið magn af rusli og braki hrundi yfir sorpvinnslustöð. AP/Jacqueline Hernandez

Að minnsta kosti tveir eru látnir og 36 er saknað eftir að fjall úr rusli og braki hrundi yfir sorpvinnslustöð á ruslahaug á Filippseyjum. Flóð rusls og braks flæddi yfir hús og eru margir sagðir hafa lokast inni. Þrettán var bjargað í nótt en einn þeirra lést í.

Allir þeir sem eru látnir eða er saknað störfuðu í sorpvinnslustöðinni.

Björgunarsveitir voru að störfum við að reyna að grafa fólkið út í dag, samkvæmt AP fréttaveitunni. Er notast við stórar vinnuvélar til að leita að fólkinu á meðan fjölskyldur þeirra sem saknað er fylgjast með.

Samkvæmt starfsmanni sem rætt var við hrundi ruslfjallið skyndilega og í góðu veðri. Jaylord Antigua var á skrifstofu sinni þegar rusl flæddi þar inn en honum tókst að skríða gegnum ruslið og sleppa úr húsinu.

„Ég sá ljós og skreið í áttina að því í flýti, því ég óttaðist frekari skriður,“ sagði Antigua.

Ruslahaugar sem þessir hafa lengi valdið áhyggjum víðs vegar í Filippseyjum. Bæði vegna skorts á öryggi og vegna mögulegrar mengunar.

Árið 2000 hrundi stærðarinnar haugur af rusli yfir kofabyggð í úthverfi Manila, en þá hafði veður verið vont í nokkra daga. Eldur kviknaði í skriðunni og rúmlega tvö hundruð manns létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×