Handbolti

Mathias „Gæsling“ kemur til Andabæjar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrés Önd og Mathias Gidsel á forsíðu nýjustu Syrpunnar í Danmörku.
Andrés Önd og Mathias Gidsel á forsíðu nýjustu Syrpunnar í Danmörku.

Danski handboltamaðurinn Mathias Gidsel er persóna í sögu um Andrés Önd í væntanlegri Syrpu.

Gidsel, sem er að margra mati besti handboltamaður heims um þessar mundir, er persóna í sögunni „Boltaleikir og bófar“ í Syrpu sem kemur út á fimmtudaginn, sama dag og Evrópumótið í handbolta hefst.

Gidsel, sem heitir Mathias Gæsling, kveðst upp með sér að vera kominn í sögu um Andrés Önd en hann er einnig framan á Syrpunni.

„Það er gaman að sjá sjálfan mig sem teiknimyndapersónu ásamt Andrési Önd. Ég las blaðið oft í æsku svo það er auðvitað stórt að ég hafi nú líka fengið að spila fyrir Andabæ,“ sagði Gidsel í fréttatilkynningu.

„Mér finnst frábært að Syrpan skuli vekja athygli á handbolta í aðdraganda Evrópumótsins og ég vona að það geti hvatt enn fleiri börn og unglinga til að fara út og prófa íþróttina, svitna á skemmtilegan hátt og kynnast nýjum vinum.“

Í sögunni „Boltaleikir og bófar“ er Andrés Önd aðstoðarframleiðandi í Andabæjarhöllinni þar sem á að taka upp auglýsingamyndband fyrir handboltamót. Auk Gidsels koma hinn sænski Jim Gottfridson, Þjóðverjinn Juri Knorr og Magnus Rød, leikmaður norska landsliðsins, fyrir í sögunni. Sem fyrr sagði nefnist Gidsel Mathias Gæsling í sögunni, Jim Gottfridson er Jim Gottfridsand, Juri Knorr er Juri Knurhår og Magnus Rød er Magnus Rødkælk.

Eins og venjulega þegar Andrés Önd á í hlut fara hlutirnir ekki alveg eins og þeir eiga að fara en tökurnar á auglýsingunni raskast þegar Bjarnabófarnir dulbúast sem leikstjórar. Þeir eru þó alls ókunnugir handboltanum sem íþrótt og fá fyrir ferðina frá handboltamönnunum fjórum.

Þetta er í fyrsta sinn sem danskur handboltamaður kemur fyrir í sögu um Andrés Önd en áður höfðu dönsku tennisstjörnurnar Caroline Wozniacki og Holger Rune og badminton-spilarinn Viktor Axelson verið í Andréssögu.

Gidsel og félagar í danska landsliðinu hefja leik á EM gegn Norður-Makedóníu á föstudaginn. Portúgal og Rúmenía eru einnig í B-riðli mótsins. Danir hafa orðið heimsmeistarar fjórum sinnum í röð en ekki unnið EM síðan 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×