Erlent

Fá Andrés Önd til að bjarga læsi barna

Kjartan Kjartansson skrifar
Andrés Önd til bjargar. Hann nýtur mikilla vinsælda í Finnlandi þar sem hann er þekktur sem Aku Ankka.
Andrés Önd til bjargar. Hann nýtur mikilla vinsælda í Finnlandi þar sem hann er þekktur sem Aku Ankka. Vísir/Getty

Þúsundir grunnskólabarna í Helsinki fá áskrift að vikublaði um teiknimyndapersónuna Andrés Önd ókeypis á næstunni. Tilgangurinn er að kanna hvort aðgangur að lesefni hafi áhrif á áhuga barna á lestri sem fer dvínandi í Finnlandi eins og víðar annars staðar.

Verkefnið er hluti af rannsókn Háskólans í Jyväskylä á læsi og áhuga barna á lestri en hvoru tveggja hefur hnignað á undanförnum árum, að sögn finnska ríkisútvarpsins. Ekkert lesefni er nú að finna á mörgum finnskum heimilum og er rannsókninni ætlað að kanna hvort aðgengi að lesefni geti kveikt áhuga hjá börnum.

Rúmlega 5.500 börn í þriðja bekk í Helsinki fá Andrés vikulega heim til sín í þrjá mánuði í vor og í sumar. Rannsóknir eru sagðar benda til þess að myndasögur höfði sérstaklega til drengja og að þær geti kveikt áhuga barna sem læsu annars ekki sér til yndis.

„Læsi fer hnignandi sem kemur tæplega á óvart þegar tími sem er varið í lestur hefur helmingast á undanförnum tveimur áratugum,“ segir Minna Torppa, prófessor við Háskólann í Jyväskylä.

Lestrargeta barnanna sem taka þátt verður metin bæði fyrir og eftir tilraunina og þá á að bjóða foreldrum þeirra upp á leiðsögn um hvernig þeir geti hvatt börnin til dáða heima fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×