Fótbolti

María í eitt besta lið Sví­þjóðar en tekur ís­lenska lands­liðið fram yfir það sænska

Sindri Sverrisson skrifar
María Ólafsdóttir Gros er komin í Djurgården-treyjuna.
María Ólafsdóttir Gros er komin í Djurgården-treyjuna. Djurgården IF

Hin 22 ára gamla, akureyska fótboltakona María Ólafsdóttir Gros, sem valin var í A-landsliðshópinn fyrir síðustu leiki, var í dag kynnt sem leikmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Djurgården.

„Þetta er ótrúlega góð tilfinning og ég er mjög spennt. Ég hef fulla trú á því að ég geti hjálpað liðinu að ná markmiðum sínum, um leið og þetta er góður staður fyrir mig til að vaxa sem fótboltakona,“ segir María sem hafði úr fleiri kostum að velja.

Hún kemur til Djurgården eftir að hafa verið lykilmaður hjá Linköping sem féll úr sænsku úrvalsdeildinni í haust. Djurgården er á meðal sterkustu liða Svíþjóðar og hafnaði í 4. sæti á síðustu leiktíð.

Hjá Djurgården hittir María fyrir sinn gamla þjálfara, Skotann Willie Kirk, sem þjálfaði Linköping. Hún hefur áður einnig spilað í Skotlandi sem og í Hollandi, en með Þór/KA hér á landi

„Hann [Kirk] er einn af bestu þjálfurum sem ég hef haft, þannig að það er mjög spennandi að halda áfram að vinna með honum. Mér fannst ég vaxa mikið á því hálfa ári sem ég hafði hann í Linköping,“ sagði María við heimasíðu Djurgården.

Ætlar sér í íslenska landsliðið

María ólst upp á Akureyri en á íslenskan pabba og sænska móður. Hún hefur leikið 37 leiki fyrir yngri landslið Íslands og var eins og fyrr segir valin í A-landsliðshópinn sem mætti Norður-Írlandi í Þjóðadeildarumspili í vetur. Hún bíður þess þó enn að spila sínar fyrstu mínútur fyrir A-landsliðið.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég er valin í A-landsliðið og auðvitað vill maður spila, jafnvel þótt ég hafi ekki spilað minn fyrsta leik þá. En ég lít á valið sem fyrsta skrefið í þá átt og þótt ég geti enn valið á milli þess að spila fyrir Ísland eða Svíþjóð, þá líður mér aðeins meira eins og Íslendingi,“ sagði María.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×