Fótbolti

Gamla Ís­lendinga­fé­lagið gæti breytt aftur um nafn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir var leikmaður félagsins þegar það breytti síðast um nafn árið 2013. Hér er hún í leik með FC Rosengård.
Sara Björk Gunnarsdóttir var leikmaður félagsins þegar það breytti síðast um nafn árið 2013. Hér er hún í leik með FC Rosengård. Getty/Simon Hofmann/

Sænska kvennafótboltafélagið FC Rosengård verður endurskipulagt frá grunni og nú gæti félagið einnig skipt um nafn eftir eigendaskiptin.

„Við munum mögulega skoða annað nafn,“ segir nýi meðeigandinn Rebecca „Bex“ Smith við Sydsvenskan.

Í desember samþykkti FC Rosengård ákvörðun um hlutafélagavæðingu á aukaaðalfundi. Í vikunni kom Crux Football formlega inn sem fjárfestir og meðeigandi í kvennaliði FC Rosengård.

Það er ekki aðeins eignarhaldið sem breytist í grundvallaratriðum. Stofnandi og forstjóri Crux, Rebecca „Bex“ Smith, tilkynnir nú að nafn félagsins, FC Rosengård, gæti heyrt sögunni til.

Vörumerkið og sjálfsmyndin

„Við þurfum að skoða hvað vörumerkið þýðir fyrir sjálfsmyndina og í kjölfarið mögulega skoða annað nafn og aðra liti félagsins, sem endurspegla raunverulega rétta sjálfsmynd þessa liðs,“ sagði Smith.

Bex Smith bætir við að hugsanleg nafnbreyting muni ekki fela í sér nafn fyrirtækis. Til þess að nafnbreyting gangi í gegn þarf að samþykkja breytinguna á aðalfundi og samkvæmt 51 prósents reglunni má Crux Football aðeins eiga 49 prósent atkvæða.

„Tæknilegt atriði. Við erum með stjórn í eignarhaldsfélaginu með fulltrúum bæði frá félaginu og Crux og þar eru allir sammála um uppbyggingu og þróun þessa kvennaliðs. Allir vilja fara í sömu átt,“ segir Bex Smith.

Annað nafn, aðrir litir

„Við munum mögulega skoða annað nafn, aðra liti, annað vörumerki sem endurspeglar rétta ímynd kvennaliðs félagsins,“ segir Smith.

Rosengård hefur verið mikið Íslendingalið en síðast til að spila með liðinu var Ísabella Sara Tryggvadóttir. Áður varð Guðrún Arnardóttir lykilmaður og sænskur meistari með félaginu auk þess að vera fyrirliði á síðustu tímabilum sínum.

Þegar Ásthildur Helgadóttir gerði garðinn frægan hjá félaginu hér hét það Malmö FF Dam og Sara Björk Gunnarsdóttir var stjarna liðsins og margfaldur meistari með því þegar nafninu var breytt úr LdB FC Malmö í FC Rosengård.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×