Innlent

Karó­lína Helga skákaði sitjandi odd­vita í Hafnar­firði

Agnar Már Másson skrifar
Karólína Helga Símonardóttir er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum 2026.
Karólína Helga Símonardóttir er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum 2026. Aðsend

Karólína Helga Símonardóttir var kjörinn oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í dag og mun því leiða flokkinn í sveitarfélaginu í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún hafði betur gegn Jóni Inga Hákonarsyni, sem hefur leitt listann síðustu átta ár.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Viðreisn í Hafnarfirði. Karólína hlaut tæplega 52 prósent atkvæða (317 atkvæði) í rafrænu prófkjöri sem haldið var í dag. Jón Ingi, hefur verið eini fulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði síðustu frá 2018, hlaut 42 prósent atkvæða (259 atkvæði). 

Sjá einnig: Kosningavakt Vísis

Annað sætið í prófkjörinu hlaut Árni Stefán Guðjónsson sem bauð sig bæði fram í fyrsta og annað sætið. Árni hlaut 334 atkvæði í annað sæti en 27 í hið fyrsta. Hann hlaut því 59 prósent atkvæða samanborið við 20 prósent sem féllu í skaut mótframbjóðanda hans, Hjördísi Láru Hlíðberg (110 atkvæði í annað sæti).

Karólína Helga Símonardóttir oddviti Viðreisnar og Árni Stefán Guðjónsson, sem skipar 2. sætið.Aðsend

Karólína Helga Símonardóttir, sem er fertug, er mannfræðingur að mennt og með kennsluréttindi á öllum skólastigum auk þess sem hún er atvinnurekandi. Hún hefur verið varabæjarfulltrúi Viðreisnar síðasta kjörtímabil og er 1. varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Þá var hún áður varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð árið 2017.

Árni Stefán Guðjónsson er 39 ára en hann er menntaður sem kennari og starfar í dag sem áfangastjóri í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

Haft er eftir nýjum oddvita í fréttatilkynningu frá Viðreisn að þakklæti til félagsfólks sé henni efst í huga. „Þetta hefur verið snörp en skemmtileg prófkjörsbarátta, ég þakka Jón Inga [svo] fyrir drengilega baráttu,“ segir Karólína Helga samkvæmt tilkynningunni.

Á kjörskrá voru 753 og var kjörsókn 82%, samkvæmt tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×