Innlent

„Ekki það sem fundurinn var að sam­þykkja“

Agnar Már Másson skrifar
Líf Magneudóttir er oddviti VG og formaður borgarráðs.
Líf Magneudóttir er oddviti VG og formaður borgarráðs. Vísir/Vilhelm

Það kom Líf Magneudóttur, oddvita Vinstri grænna (VG) í Reykjavík, í opna skjöldu þegar hún heyrði frá fjölmiðlum að Sanna Magdalena Mörtudóttir myndi leiða sameiginlegt framboð VG og Vors til vinstri. Það hafi ekki verið það sem samþykkt var á fundi félags félags VG í Reykjavík í dag. Stjórnarformaður félagsins segir að viðræður framboðanna hafi byggt á því að Sanna myndi leiða listann, þótt það hafi ekki verið formlega samþykkt. Hann segir að hugmyndir um slíkt hafi verið kynntar félagsmönnum, en ekki meitlaðar í stein.

Einhvers misskilnings virðist gæta um það sem samþykkt var á félagsfundi VG í Reykjavík í dag. 

Fréttatilkynning barst fjölmiðlum á sjötta tímanum í kvöld frá stjórn Vinstri grænna í Reykjavík (VRG) þar sem fram koma að VRG og Vor til vinstri, sem er nýtt framboð Sönnnu Magdalenu Mörtudóttur borgarfulltrúa Sósíalistaflokksin, hygðust mynda bandalag og bjóða fram í sameiginlegu framboði í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta hefði allt verið samþykkt samkvæmt tillögu stjórnar félags VG í Reykjavík sem samþykkt var á félagsfundi í dag.

Í tilkynningunni kom fram að Sanna myndi leiða framboðið og aðrir fulltrúar Vors til vinstri skipa einnig 4. og 5. sæti en á sama tíma myndu fulltrúar Vinsti grænna skipa 2., 3. og 6. sæti listans. 

„Erum við kannski bara ósammála um sundabraut?“

Þessar fréttir komu Líf Magneudóttur, oddvita Vinstri græna í höfuðborginni, í opna skjöldu. Hún segist almennt hlynnt því að vinstrimenn sameini krafta sína en segir að fréttatilkynningin sem stjórnin sendi út rími ekki við þær tillögur sem samþykktar voru á félagsfundi VG í dag. 

„Ég er formalisti,“ segir Líf í samtali við Vísi, „og tillagan sem var samþykkt gekk ekki út á það að Vor til vinstri fengi fyrsta sætið, eða hvernig þetta nú væri.“

1. Félagsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík, haldinn 18. janúar 2026, samþykkir að halda forval til uppröðunar þriggja efstu fulltrúa hreyfingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar 16. maí nk. Forvalið skal fara fram helgina 20.–22. febrúar nk. með rafrænum hætti. 

Félagsfundur kýs til stjórnar Rósu Björg Brynjólfsdóttur, Sigurbjörgu Gísladóttur, Bjarna Þóroddsson, Jónínu Riedel, Katrínu Jakobsdóttur og Ólaf Halldórsson.

2. Félagsfundurinn lýsir yfir stuðningi við áform um sameiginlegt framboð með Vor til vinstri og felur stjórn félagsins að ljúka vinnu við endanlega tillögu að framboðinu, þ.á.m. röðun frambjóðenda, um málefnagrundvöll og hvaða sæti er kosið í fyrir forval borgarstjórnar.

Endanlegur framboðslisti og málefnasamningur verður lagður fyrir félagsfund til samþykktar.

Þá segir hún að lítið sem ekkert liggi fyrir málefnalega. „Það er okkur vinstrimönnum kært að vita hvað við erum að fara að ganga inn í. Erum við kannski bara ósammála um sundabraut? Við þurfum að vita þetta,“ bætir formalistinn sjálfyfirlýsti við.

Þá bendir Líf á að þó að félagsfundurinn hafi lýst yfir stuðningi við „áform um sameiginlegt framboð“ , verði slíkt aldrei samþykkt nema að undangegnu fyrirkomulagi sem liggi fyrir. Hún ítrekar að listauppröðunin sem nefnd var í tilkynningu hafi ekki legið fyrir á fundinum. 

„Þetta kom ekkert fram á fundinum. Þetta er ekki það sem fundurinn var að samþykkja,“ segir Líf.

Stjórnarformaður VGR: Kynntu hugmyndir um að Sanna myndi leiða listann

Vísir sló á þráðinn hjá Gísla Garðarssyni, stjórnarformanni í félagi VG í Reykjavík, segir að stjórn VG í Reykjavík hafi kynnt á fundinum hugmyndir um að Sanna myndi leiða listann og VG skipa 2. og þriðja sætið, en rétt sé að það hafi ekki verið í formlegri samþykkt fundarins í dag. 

Framboðslisti sé auk þess ekki samþykktur fyrr en tillaga hafi verið lögð fyrir félagsfund til samþykktar.

„Þannig að það kemur náttúrulega einhver niðurstaða úr forvali hjá okkur og Vor til vinstri velur eitthvað fólk hjá sér og svo er það uppstillingarnefnd sem setur saman lista og ber hann fyrir félögin til samþykktar,“ segir Gísli. „Þannig að endanlegur listi er auðvitað ekkert frágenginn,“ segir Gísli Garðarsson.

Það kemur fram í fréttatilkynningu að Sanna Magdalena myndi leiða framboðið [...]. Þetta var ekki samþykkt á fundinum, eða hvað?

„Þetta er það sem hefur verið rætt en framboðslistinn er auðvitað ekki samþykktur fyrr en hann er samþykktur.“

En er gengið út frá því að Sanna muni leiða listann?

„Það hefur verið umræðan í þessum viðræðum. En aftur, listinn er ekki frágenginn.“

Er ekki meira yfirlýsing um að hefja viðræður? Var ekki fullsnemmt að senda einhverja tilkynningu þess efnis? Hvað ef þið eruð ósammála í hinum og þessum málum?

„Viðræðurnar hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið núna og það er mjög mikill málefnalegur samgrunnur en þetta er það sem stjórnir þessara félaga eru að vinna að akkúrat núna, og við höfum væntingar um og umboð frá félagsfundi til þess að klára.“

Eins og spilin standa hafa aðeins tveir frambjóðendur gefið opinberlega kost á sér í oddvitasæti Vinstri grænna en ungliðinn Finnur Ricart Andrason, sérfræðingur í umhverfis- og loftslagsmálum, hefur boðið sig fram gegn Líf, sem gefur kos á sér að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×